Ráðið er þó mótfallið hugmyndum um að Háskólinn á Akureyri verði gerður að útibúi frá háskóla með höfuðstöðvar í Reykjavík og telur skorta fullnægjandi rökstuðning fyrir slíkum hugleiðingum. Í þessu sambandi vill ráðið taka fram eftirfarandi:
Háskólinn á Akureyri hefur frá árinu 1987 verið leiðandi í uppbyggingu háskólamenntunar á landsbyggðinni. Sjálfstæði háskólans hefur gegnt lykilhlutverki í þeirri uppbyggingu og sérstöðu hans. Þannig hefur Háskólinn á Akureyri skilað miklum fjölda háskólamenntaðs fólks sem býr og starfar á landsbyggðinni og gegnir þar mjög mikilvægu hlutverki við uppbyggingu atvinnulífs um allt land. Með því að leggja af yfirstjórn Háskólans á Akureyri og stýra skólanum frá miðlægri stofnun í Reykjavík væri þessu mikilvæga hlutverki og sérstöðu háskólans ógnað.
Við Háskólann á Akureyri hefur á undanförnum áratugum verið byggt upp öflugt rannsóknastarf og fjölbreytt námsframboð. Náið samstarf háskólans og samfélagsins hefur verið eitt aðalsmerki Háskólans á Akureyri og sjálfstæði háskólans hefur gert honum kleyft að bregðast fljótt við nýjum áskorunum, verkefnum og hugmyndum og tengja rannsóknarstarfið þeim málum sem brenna á nærsamfélaginu. Verði háskólinn gerður að útibúi frá háskóla með höfuðstöðvar í Reykjavík er hætt við að uppbygging rannsókna og kennslu staðni með neikvæðum afleiðingum fyrir nærsamfélagið jafnt sem íslenskt háskólasamfélag.
Háskólinn á Akureyri er jafnframt leiðandi í uppbyggingu fjarnáms um allt land og hefur veitt miklum fjölda fólks tækifæri til að stunda háskólanám án tillits til búsetu. Háskólinn hefur áætlanir um að efla fjarnámið enn frekar á grundvelli þeirrar miklu reynslu sem starfsfólk skólans hefur á því sviði. Vandséð er að fjarnámi og frekari þróun þess verði betur fyrir komið hjá útibúi, sem stýrt er frá háskóla í Reykjavík.
Loks bendir háskólaráð á að með endurskipulagningu á rekstri Háskólans á Akureyri hefur tekist að skapa hagkvæma rekstrareiningu sem rekin hefur verið innan ramma fjárlaga síðastliðin ár. Með auknu samstarfi við aðra háskóla geta ýmsir möguleikar skapast á enn frekari hagræðingu í rekstri skólans. Hins vegar er ljóst að lítið sem ekkert er unnið með sameiningu skólans við aðra háskóla, nema að því marki sem kjarnastarfsemi skólans yrði flutt til höfuðstöðva í Reykjavík, á kostnað sjálfstæðis og sérstöðu Háskólans á Akureyri.