Bæjarráð Akureyrar harmar þá afstöðu sem meirihluti sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu hefur tekið varðandi mögulega sameiningu. Eins og Vikudagur greindi frá skömmu fyrir áramót óskaði Akureyrarbær eftir samstarfi við önnur sveitarfélög í Eyjafirði um að gera fýsileikakönnun á sameiningu sveitarfélaganna í eitt sveitarfélag.
Um var að ræða sameiningu sjö sveitarfélaga sem eru Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandahreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Dalvík og Fjallabyggð. Aðeins Dalvíkurbyggð og Svalbarðsstrandahreppur tóku jákvætt í erindið og hefur bæjarráð falið forseta bæjarstjórnar að boða til fundar með forsvarsmönnum sveitarfélaganna tveggja um möguleika á útfærslu á slíkri könnun. Dalvíkurbyggð samþykkti með fimm atkvæðum að taka þátt í samstarfi við önnur sveitarfélög í Eyjafirði um gera fýsileikakönnun. Tveir greiddu atkvæði á móti.
Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps tekur undir sjónarmið bæjarstjórnar Akureyrar um að mikilvægt sé að taka málefnalega umræðu um þessi mál á grundvelli væntanlegrar könnunar.