Nú kl. 16.00 hófst fundur í bæjarstjórn Akureyrar, þar sem á meðal dagskrárliða er seinni umræða um samþykkt um búfjárhald. Þetta mál hefur verið töluvert í umræðunni síðustu vikur, þar sem lagt er til í þessari nýju samþykkt að hanar verði bannaðir utan lögbýla á Akureyri. Haninn Hrólfur hefur einnig fengið sinn skammt af sviðsljósinu, enda eini fullorðni haninn í bænum og hann mun nú vera á leið á fund í bæjarstjórn Akureyrar.
Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans óskaði eftir því við Sigurvin Jónsson eiganda Hrólfs, að hann kæmi með hanann á fundinn, þegar umræður um búfjárhaldið hefjast á eftir og ætlar Siguvin að verða við því. Hrólfur er þó ekki í hættu þótt hanar verði bannaðir, því bannað verður ekki afturvirkt. Hvort Hrólfur muni blanda sér eitthvað í umræðurnar í bæjarstjórn á eftir að koma í ljós. Hrólfur á reyndar tvo syni, þá Odd Helga og Böðvar en þeir hafa ekki náð kynþroskaaldri og fá heldur ekki að fara á fund bæjarstjórnar.