Það fer hver að verða síðastur að heimsækja handverkskonurnar í Kaðlín í höfuðstöðvum þeirra í Pakkhúsinu við Sölku á Húsavík, því þær fara þaðan út um áramótin. Eigandi hússins, Börkur Emilsson veitingamaður, hyggst nota rýmið í annað og þær Kaðlínarkonur hafa því verið á höttunum eftir nýju húsnæði í bænum síðustu vikurnar.
Kaðlín verður opin fyrir jólin og til áramóta og þar er örugglega að finna flottustu jólagjafirnar í öllum bænum og er sjón sögu ríkari.
„Við sjáum að sjálfsögðu eftir þessu fína húsnæði, en hér höfum við verið frá árinu 2001. Við erum á besta stað í bænum og sjálft húsið er eins og sniðið fyrir okkur, þannig að það verður erfitt að finna eitthvað sambærilegt.“ Segja þær. Og hafa sem sagt leitað dyrum og dyngjum en árangurslaust, því allt húsnæði sem ekki er í notkun er frátekið fyrir ferðaþjónustu af einhverju tagi.
En sem betur fer er búið að redda sumrinu en þá er aðalvertíðin í sölu á handverki. Bærinn hljóp þar undir bagga og skýtur skjólshúsi undir Kaðlín á neðri hæð Samkomuhússins frá 1. maí og út september. Hvað þá tekur við liggur svo ekki fyrir.
Þær stöllur hafa samt ekki lagt árar í bát og beina þeim tilmælum til fólks sem veit af heppilegu húsnæði að hafa endilega samband. Og að sjálfsögðu hvöttu þær Þingeyinga til að líta við í Pakkhúsinu þessa síðustu daga Kaðlínar þar. JS