Hanar verða bannaðir en Hrólfur og synir fá að lifa

Haninn Hrólfur á öxl eiganda síns Sigurvins Jónssonar.
Haninn Hrólfur á öxl eiganda síns Sigurvins Jónssonar.

Meirihluti framkvæmdaráðs samþykkti á fundi nefndarinnar fyrir helgina, endurskoðaða samþykkt um búfjárhald á Akureyri og fer samþykktin til afgreiðslu í bæjarstjórn í framhaldinu. Þetta mál hefur verið nokkuð í umræðunni, þar sem hanar verða bannaðir utan lögbýla á Akureyri. Haninn Hrólfur hefur fengið sinn skammt af sviðsljósinu í þessari umræðu, enda eini fullorðni haninn í bænum. Hrólfur er þó ekki í hættu, frekar en synir hans tveir, Oddur Helgi og Böðvar, því samþykktin er ekki afturvirk og því hafa eigendur hana í bænum rétt til að halda þá á meðan þeir lifa.

Sigfús Arnar Karlsson B-lista lagði fram tillögu á fundi framkvæmdaráðs um að sett yrði sérstakt ákvæði um að eigendur hana sem nú þegar eru haldnir, fái að halda þá meðan hanarnir lifa. Tillaga Sigfúsar var felld og því héldu margir að dagar Hrólfs og sona hans væru taldir. En þar sem samþykktin er ekki afturvirk taldi framkvæmdráð óþarft að samþykkja tillögu Sigfúsar, samkvæmt upplýsingum Bergs Þorra Benjamínssonar fulltrúa á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar.

 

 

Nýjast