Hallbjörn ráðinn verkefnastjóri vegna stækkunar Könnunarsafnsins

Hallbjörn Þórsson verkefnastjóri fyrir framan Cape Hotel á Húsavík. Mynd: epe
Hallbjörn Þórsson verkefnastjóri fyrir framan Cape Hotel á Húsavík. Mynd: epe

Hallbjörn Þórsson hefur verið ráðinn verkefnisstjóri vegna fyrirhugaðrar stækkunar Könnunarsafnsins á Húsavík.

Stefnt er að opnun nýrrar viðbyggingar safnsins árið 2019, en þá verða 50 ár frá því að menn tóku sín fyrstu skref á tunglinu. Aðal sýningarmunur hinnar nýju byggingar verður eftirlíking í fullri stærð af tunglferjunni sem Neil Armstrong og Buzz Aldrin lentu á tunglinu árið 1969.

Einnig verður  þar vísindasýning fyrir börn og kvikmynda- og fyrirlestrarsalur. Þá verður í nýju byggingunni sýning um landkönnuðinn Vilhjálm Stefánsson, en sú sýning er unnin í samstarfi við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri og The Explorers Club í New York.

Hallbjörn hefur starfað um árabil í ferða- og veitingageiranum, m.a. sem kokkur á veitingahúsinu Fjörunni á Húsavík. hjá Sel-Hóteli við Mývatn og hjá Fosshótel á Húsavík. Á árunum 2000 til 2007 rak hann þrjá veitingastaði í Færeyjum. Sambýliskona hans er Helena Eydís Ingólfsdóttir verkefnisstjóri hjá Þekkingarneti Þingeyinga.

Fjármögnun verkefnisins er nú í gangi og er þegar búið að tryggja rúmlega þriðjung hennar. Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs en tunglfarinn Charlie Duke mun taka fyrstu skólflustunguna ásamt skólabörnum úr Þingeyjarsýslum, þegar hann heimsækir safnið í sumar.

Nýjast