Aðalfundur Einingar-Iðju, sem haldinn var í gær, skorar á ríkisstjórn Íslands að framkvæma ítarlega rannsókn á hagrænum og félagslegum afleiðingum þeirra breytinga sem frumvörp um stjórn fiskveiða og veiðigjald munu hafa í för með sér á sjávarbyggðir, sjávarútveg, starfsöryggi og kjör launafólks í greininni. Ályktunin var samþykkt samhljóða. Við innleiðingu slíkra breytinga er nauðsynlegt að fara varlega af stað í upphafi til þess að kollvarpa ekki greininni. Eftir tvö til þrjú ár er nauðsynlegt að staldra við og meta áhrif breytinganna áður en framhaldið verður ákveðið. Einnig þarf að hafa í huga og taka tillit til misjafnar stöðu sjávarútvegsfyrirtækja. Sum fyrirtæki eru mjög skuldsett eftir kaup á kvóta, á meðan önnur fyrirtæki hafa lítið sem ekkert fjárfest í tækjum og búnaði á síðustu árum.
Aðalfundur Einingar-Iðju hvetur því stjórnvöld til að stilla skattheimtu í hóf þannig að hún hamli ekki endurnýjun og fjárfestingu í greininni. Ef farin er varúðarleið í upphafi og sérstaka veiðigjaldið haft lægra en gert er ráð fyrir í frumvarpinu er tekið tillit til mismunandi stöðu fyrirtækja og byggðarlaga og þeim gefinn kostur á að laga sig að breyttu umhverfi með hagsmuni fiskvinnslufólks og sjómanna að leiðarljósi, ennfremur í ályktuninni.