Hagnaður KEA á síðasta ári nam 161 milljón króna

Hagnaður KEA eftir skatta á síðasta ári nam rúmlega 161 milljón króna en var 101 milljón króna árið áður. Heildareignir félagsins námu um 4,5 milljörðum króna og eigið fé var 4,4 milljarðar króna.  Ekki urðu mikar breytingar á eignasafni félagsins á síðasta ári. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, segir niðurstöðuna þolanlega í ljósi aðstæðna. Mjög stór hluti eigna félagsins eru lausir fjármunir en vaxtastig lækkaði mikið á milli rekstrarára. Staða fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í, var heilt yfir, mun betri á síðasta ári en árið áður. Gangvirðisbreyting fjáreigna er af þessum sökum jákvæð en var neikvæð árið áður og skýrir það að mestu aukningu hagnaðar á milli ára. 
Halldór segir að yfirstandandi ár verði krefjandi þar sem vextir í sögulegu samhengi eru mjög lágir. “Á meðan samsetning eigna félagsins er með áðurnefndum hætti er ljóst að möguleikar á betri rekstrarafkomu, til skemmri tíma litið eru ekki margir. Áfram verður haldið að leita verkefna sem mæta stefnu félagsins og breyta samsetningu eigna í sama tilgangi en fjárfestingaumhverfið er ekki fjölbreytilegt um þessar mundir,” segir Halldór. Hann segir að efnahagur félagsins sé mjög traustur, félagið er nánast skuldlaust, eiginfjárhlutfall er mjög hátt. Félagsmönnum KEA hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og þeir eru nú rúmlega 18.000 talsins.

 

Nýjast