Glöggur lesandi Vikudags hafði samband við blaðið og vildi vekja athygli á því hversu hættuleg leiðin yfir Glerá er fyrir hjólandi og gangandi vegfarendur. Þessi leið sé mjög þröng og að þar sé erfitt að mætast með góðu móti, þegar þar fara um t.d. fólk á reiðhjólum og gangandi vegfarendur, jafnvel með barnavagna. Meðfram þessari gönguleið er umferð bíla mjög hröð, ekki síst þegar ökumenn koma að grænu ljósi. Oft hafi mátt litlu muna að gangandi eða hjólandi hafi hreinilega hrakist út götuna og í veg fyrir bíl. Þá hafi gangandi og hjólandi vegfarendur fengið yfir sig aurslettur frá bílum sem aka hratt þarna um þegar blautt er, enda engin undankomuleið, þegar fólk er á miðri brúnni.
Lesandi Vikudags telur nauðsynlegt að bæta þarna úr og að ein hugmyndin væri að færa gönguleiðina utan á brúna, þannig að núverandi vegrið væru þá á milli gangandi vegfaranda og bílaumferðarinnar. Enn betra væri þó setja göngubrú yfir Glerá í beinu framhaldi af Skarðshlíð. Þessari ábendingu er hér með komið á framfæri til bæjaryfivalda og Vegagerðarinnar, enda teljast Hörgárbraut og Glerárgata vera stofnbrautir í þéttbýli.