Hætt við að breyta barnadeild FSA í 5 daga deild yfir sumartímann

Þorvaldur Ingvarsson forstjóri FSA hefur ekki ákveðið hvort hann sækir um stöðuna. Mynd: Hörður Geir…
Þorvaldur Ingvarsson forstjóri FSA hefur ekki ákveðið hvort hann sækir um stöðuna. Mynd: Hörður Geirsson.

Framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri hefur ákveðið að hætta við að breyta barnadeild sjúkrahússins í 5 daga deild yfir sumartímann eins og kynnt hafði verðið. Í frumvarpi til fjárlaga var gerð niðurskurðarkrafa á Sjúkrahúsið á Akureyri upp á tæpar 70 milljónir króna á næsta ári en við lokaafgreiðslu fjárlaga var sú upphæð lækkuð um 37 milljónir króna. Því var ákveðið að hætta við að breytingar á barnadeildinni, að sögn Þorvaldar Ingvarssonar forstjóra.

Hann sagðist ánægður með hafa fengið þessar 37 milljónir króna, enda situr spítalinn uppi með umtalsverðan halla á þessu ári, sem hann vonar þó að verði undir 100 milljónum króna í árslok. “Okkar fólk hefur staðið sig einstaklega vel í að hagræða og halda í kostnað.” Ýmsar hagræðingaraðgerðir voru kynntar í haust og verður t.d. dregið úr bókasafnsþjónustu og trúarlegri þjónustu. Þorvaldur segir að ekki þurfi að minnka starfsemina frekar á bráðasviði og að hægt verði að halda sjó þar. Eins og áður hefur komið fram munu breytingarnar sem gerðar verða leiða til þess að störfum við sjúkrahúsið fækki um 20-25 og hafa áhrif á starfshagi 30-40  starfsmanna. Reynt verður þó að nýta starfsmannaveltu við breytingarnar og er útlit fyrir að það takist að mestu.

Þorvaldur var ráðinn forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri til áramóta, m.a. til að koma af stað vinnu við nýja framtíðarsýn og nýtt skipurit spítalans. Þeirri vinnu er nú lokið og hefur m.a. verið auglýst eftir þremur nýjum framkvæmdastjórum við spítalann og bárust sex umsóknir um þær stöður, þar af frá fimm núverandi starfsmönnum á FSA. Þá hefur staða forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri jafnfarmt verið auglýst laus til umsóknar tímabundið en velferðarráðherra mun skipa í stöðuna frá 1. febrúar nk. og til eins árs. Nú um áramótin hefst formlega ársleyfi Halldórs Jónssonar forstjóra FSA.

Aðspurður sagðist Þorvaldur, sem er bæklunarskurðlæknir, ekki vera búinn að gera það upp við sig hvort hann sækir um stöðu forstjóra. “Það vantar hér lækna og ég hef frekar verið um hugsa um það þessa dagana að starfa hér sem læknir. Eins gæti það verið gott að fá utanaðkomandi aðila í starf forstjóra,” sagði Þorvaldur.

Nýjast