Hægt að spara umtalsverðar fjárhæðir án þess að breyta lífsgæðum

Í kjölfar ástandsins sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar, hafa landsmenn leitað ýmissa leiða til þess að ná fram sparnaði, m.a. í heimilisrekstrinum. Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs hefur bent á sparnaðarleiðir í orkumálum og hann kynnti á fundinum Gleðilegt ár 2009, sem fram fór í Brekkuskóla á Akureyri á dögunum, "aðgerðarpakka fjölskyldunnar."  

Sigurður bendir á að hægt sé að spara mikið ef fólk ef tilbúið að breyta sínum högum en á fundinum ákvað að hann að fara "fínt" í hlutina og kynna aðgerðarpakka, þar sem fólk getur sparað án þess að breyta sínum lífsgæðum. Í dæmi Sigurðar kemur fram að fjögurra manna fjölskylda í einbýli og með tvo bíla í rekstri getur sparað tæpar 130 þúsund krónur á ári.

Sigurður bendir á að ástæða þess að hann velur Toyota Landcrusier jeppa í sínu dæmi, er sú að þetta var mest seldi bíllinn á Íslandi á síðasta ári, eða 485 bílar. "Þessi 485 stykki þýða því miður framvirkan samning um olíukaup upp á ca. 80 þúsund tunnur næstu 10 árin með tilheyrandi gjaldeyriskostnaði."

Aðgerðarpakki fjölskyldunnar í orkumálum

Forsendur:  Fjögurra  manna fjölskylda í einbýli með 2 bíla, Toyota Landcruiser (akstur 20 þús. km/ári) Toyota Yaris (akstur 10 þús. km/ári), verð á bensíni 140 kr/L

150 m fermetra hús með 5 MWh raforkunotkun á ári. Verð á kWh = 10 kr.

Eldsneytiskostnaður skv. reiknvélum Orkuseturs = 435 þús. kr/ári

Raforkukostnaður 50 þús. kr/ári

Hitaveitukostnaður 75 þús. kr/ári

Heildarorkukostnaður: 560 þús. kr/ári

Dæmi um sársaukalausar breytingar sem draga verulega úr rekstrarkostnaði:

Aðgerð 1: Nota minni bílinn frekar. Dæmi ef Yaris er ekinn 20 þús. km og Landcruiser 10 þús. km þá minnkar eldsneytiskostnaður í 322 þús. kr.

Sparnaður 113.000 kr/ári (fjölskyldan ekur jafnmarga km og áður)

Aðgerð 2: Skipta út 15 glóperum yfir í sparperur.

Sparnaður  7.243 kr/ári

Aðgerð 3: Slökkva alveg á tækjum, um 5% raforkunotkunar heimilistækja fer oft á tíðum í svokallaða biðstöðu eða "Stand by" notkun. Hafa ber í huga að í biðstöðu eyða rafmagnstæki orku án notkunar.

Sparnaður  2.500 kr/ári

Aðgerð 4: Lækkun hita innandyra. Algengur hiti í húsum hér á landi er 23-25°C, en rannsóknir sýna að 20°C innihiti er kjörhiti, þ.e. með tilliti til loftgæða og líðan íbúa. Hafa ber í huga að hitakostnaður hækkar um 7% ef hiti er hækkaður um eina gráðu.

Sparnaður  5.250 kr/ári

Heildarsparnaður verður 127.993 kr/ári.

Athuga ber að engin breyting verður á högum fólks eftir aðgerðirnar. Fjölskyldan keyrir jafnmikið og áður, fær jafnmikla lýsingu og áður, notar heimilstæki jafnmikið og áður.

Ef 100 þúsund heimili gerðu eins þá væri:

Heildar olíusparnaður 80 milljón lítrar á ári = 500 þús. olíutunnur á ári.

Heildar raforkusparnaður 105 GWh = 52 Glerárvirkjanir.

Hægt er að setja upp ýmis dæmi um sparnað með reiknivélum Orkuseturs á www.orkusetur.is/reiknivelar.

Nýjast