G.V. Gröfur buðu lægst í endurbyggingu Skíðadalsvegar

Fyrirtækið G.V. Gröfur ehf. á Akureyri átti lægsta tilboð í endurbyggingu Skíðadalsvegar í Svarfaðardal á tveimur köflum en tilboðinn voru opnuð í dag. Fyrirtækið bauð rúmar 137,2 milljónir króna í verkið, eða tæplega 68% af kostnaðaráætlun. Um er að ræða annars vegar 3,4 km frá Skáldalæk að Brautarhóli og hinsvegar 3,4 km frá Hofsá að Ytra-Hvarfi. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar hljóðaði upp á rúmar 202,8 milljónir króna. Alls bárust 5 tilboð í verkið og voru þau öll undir kostnaðaráætlun.

Skagfirskir verktakar Sauðárkróki áttu næst lægsta tilboð í verkið, tæpar 150 milljónir króna, eða um 74% af kostnaðaráætlun, Árni Helgason ehf. í Ólafsfirði, bauð rúmar 154 milljónir króna, eða 76%, Verktakafélagið Glaumur ehf. í Garðabæ bauð rúmar 173,7 milljónir króna, eða 85,7% og G. Hjálmarsson hf. á Akureyri bauð rúmar 188,8 milljónir, eða 90,6% af kostnaðaráætlun.

Ljúka skal kaflanum Skáldalækur – Brautarhóll fyrir 1. september 2012. Neðra burðarlagi skal vera lokið á kaflanum Hofsá – Ytra Hvarf fyrir 1. nóvember 2012. Verkinu skal að fullu lokið fyrir 1. ágúst 2013.

Nýjast