Gunnlaugur: Áttum í fullu tré við þá

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari KA, var brattur eftir tapleik liðsins gegn Grindavík í Boganum í kvöld, í 32-liða úrslitum Valitor-bikar karla í knattspyrnu. Grindavík vann 2:1 og er komið áfram í 16-liða úrslit. Í fyrra sló KA Grindavík úr keppni í 16-liða úrslitum en dæmið snerist við í kvöld. „Þetta var komið þannig að þeir voru komnir með 2:0 forystu og ætluðu að bara halda þessu og gera þetta auðvelt í lokin, en við náðum að gera smá leik úr þessu í restina og erum nokkuð hættulegir eftir það. Við vorum hins vegar að gefa allt of mörg mörk,” sagði Gunnlaugur við Vikudag eftir leik.

Vörn KA gerði sig oft á tíðum seka í leiknum um að hleypa sóknarmönnum Grindavíkur í opin færi.

„Það gerist oft í leiknum að þeir sleppa einir inn fyrir á móti okkur og þetta var alltof mikið. Við vorum svolítið taktlausir í varnarleiknum í byrjun en engu að síður vorum við að fá færi en nýttum þau ekki. Þar sást kannski helst muninn á því að við leikum í 1. deild en þeir í úrvalsdeild.

Við gerum ákveðin mistök í aðdraganda þessa marka og það skilur á milli í dag. Við erum að eiga fín upphlaup og góða krossa en það vantaði kannski aðeins upp á staðsetningar hjá leikmönnum. Við áttum samt í fullu tré við þá og það var margt gott hjá okkur í kvöld," sagði Gunnlaugur.

Nýjast