Hvatningarverðlaun Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í ár voru veitt þeim hjónum á Reykjum í Fnjóskadal, Guðmundi Hafsteinsyni og Karítas Jóhannesdóttur í tengslum við aðalfund félagsins sem fram fór að Stórutjörnum í gær. Þetta er í sextánda sinn sem verðlaunin eru veitt en það var fyrst gert í tengslum við aðalfund félagsins árið 2002. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins.
„Þau Guðmundur og Karítas hafa stofnuðu nýbýlið Reyki II í Fnjóskadal 1966 og hafa búið þar síðan, fyrst með vinnu utan bús og hefðbundinn búskap og fljótlega einnig garðrækt og þá rófur og gulrætur. Gulrrótaræktin tók fljótlega yfir og fer fram í upphituðum görðum þar sem lagnakerfi hefur verið sett undir yfirborðið líkt og við þekkjum í snjóbræðsluskerfum. Eins og við vitum er á Reykjum að finna jarðhita sem hefur með þessum hugvitsamlegum hætti verið nýttur við ræktunina í þessum heitu görðum. Varan hefur verið vinsæl af neytendum í gegnum árin enda um að ræða hreina náttúruafurð sem laus er við þá fjölþættu efnanotkun sem víða tíðkast í ræktun erlendis.
Og enn standa yfir framkvæmdir og nýsköpun á Reykjum. Á síðasta ári hófu þau framleiðslu á jarðarberjum í gróðurhúsi og stefna á tvær uppskerur á ári. Hér er um að ræða vöru sem, líkt og gulræturnar, er framleidd við náttúrulegar aðstæður og laus við alla efnanotkun.
En þó að blessaður jarðhitinn sé til staðar þarf á Reykjum að glíma við ýmsar hindranir í ræktunarstarfinu. Þannig þarf að takast á við miklar frosthörkur – langt inní Fnjóskadal – einnig getur hvesst þar hressilega, svo ekki sé minnst á fannfergi. Þetta óblíða veðurfar minnti heldur betur á sig haustið 2012 með tilheyrandi tjóni á uppskeru.
Það þarf því útsjónarsemi og þrautseigju til að stunda það ræktunarstarf sem þau hjón standa fyrir. Þá er ótalið það mótlæti sem íslensk framleiðsla mætir oft hjá stóru markaðsaðilunum á matvörumarkaðnum, sem oft virðast frekar vilja flytja inn vöru af misjöfnum gæðum – oft án þess að hún sé ódýrari – en að bjóða viðskiptavinum sínum upp á vöru sem þeir vita hvaðan kemur og hvernig verður til.
Það er því full ástæða til að óska þeim hjónum til hamingju með það sem þau hafa áorkað og jafnframt óska þess að þau haldi ótrauð áfram – enda á besta aldri – því þannig er líklegra að sá sem tekur við keflinu þegar þau hafa lokið sínum spretti skili góðu verki áfram,“ segir í umsögn um verðlaunahafana.