Guðlaugur á hækjum næstu vikurnar-„Ætla að vera klár í febrúar"

Guðlaugur Arnarsson er mikilvægur hlekkur í varnarleik Akureyrar.
Guðlaugur Arnarsson er mikilvægur hlekkur í varnarleik Akureyrar.

„Það átti að hreinsa aðeins til í hnénu en svo kom í ljós að það þurfti að bora í hnéð vegna dýpri brjóskskemmda. Það þýðir bara aðeins meiri tími á hækjum,“ segir varnarjaxlinn Guðlaugur Arnarsson í liði Akureyrar. Guðlaugur hefur verið að glíma við hnémeiðsli og fór í aðgerðina skömmu fyrir jól. Þótt hann sé á hækjum núna segist hann stefna ótrauður á að ná fyrsta leiknum í N1-deildinni eftir áramót sem er í byrjun febrúar. „Markmiðið er að vera búinn að hrista þetta af sér eftir fríið. Það kemur ekkert annað til greina. Ég þarf að vera einhverjar rúmar fjórar vikur á hækjum og ég get gert allt en má ekki labba eða hlaupa. Ég get haldið mér í ágætu standi með því að lyfta, synda og hjóla og þá verð ég fljótur til þegar ég fer að æfa með liðinu,“ segir Guðlaugur.
Skothöndin í lagi
Fyrirliðinn Heimir Örn Árnason hefur einnig verið að glíma við meiðsli og spilaði mikið meiddur síðustu leikina fyrir jól. Hann þurfti að fara í frekari læknisskoðun þar sem bakslag var komið í hnémeiðslin og önnur meiðsli komu í ljós. „Það er bara hvíldarstaða á mér. Það komu í ljós bólgur undir ylinni og í öxlinni vinstra megin, sem betur fer var það ekki hægri sem er skothöndin. Ég veit eiginlega ekki nákvæmlega hvað er að mér í vinstri öxlinni en hryggjarliðirnir eru eitthvað skemmdir. Það er góð spurning hvað þetta þýðir en ég ætti að vera orðin klár í slaginn fyrir fyrsta leik á nýju ári,“ segir Heimir. Einnig er línumaðurinn Ásgeir Jónsson meiddur og óvíst hvenær hann verður klár, en hann hefur ekkert spilað með liðinu í vetur.

Nýjast