Guðbjörg Ringsted myndlistarmaður er nýr bæjarlistamaður á Akureyri en þetta var tilkynnt á Vorkomu Akureyrarstofu í Ketilhúsinu seinni partinn í dag. Alls bárust átta umsóknir um starfslaunin. Guðbjörg tekur við nafnbótinni af Eyþóri Inga Jónssyni organista í Akureyrarkirkju og kórstjóra. Guðbjörg byggir viðfangsefni sín á íslensku listhandverki og í meðförum hennar á þeirri hefð er hún óhrædd við að kanna þanþol viðfangsefnisins. Guðbjörg hefur sýnt á undanförnum árum myndir sem bera þess merki að hún vinnur staðfast og markvisst að list sinni.
Tvær heiðursviðurkenningar voru veittar úr Menningarsjóði og var það mat stjórnar Akureyrarstofu að þær mundu falla í skaut Dýrleifar Bjarnadóttur og Hauks Ágústssonar en bæði hafa lagt mikið af mörkum til menningarlífs á Akureyri. Byggingarlistaverðlaun Akureyrar voru veitt Glámu/Kím Arkitektum fyrir 4. áfanga viðbyggingar við Háskólann á Akureyri sem þykir afar vel heppnuð og er vel við hæfi að veita þessa viðurkenningu í ár, þar sem Háskólinn á Akureyri fagnar nú 25 ára afmæli sínu.
Þrjú hús á Akureyri fengu viðurkenningu Húsverndarsjóðs; Hafnarstræti 94, í daglegu tali nefnt Hamborg, Hafnarstræti 86a daglega nefnt Ragúelshús og Lækjargata 6. Öll hafa þau verið gerð upp af mikilli natni, spila stórt hlutverk í fallegri og sjarmerandi götumynd og eru bænum til mikils sóma. Stjórn Akureyrarstofu veitti einnig verðlaun til tveggja fyrirtækja, annarsvegar athafnaverðlaun sem veitt voru Kristjánsbakarí, sem fagnar í ár aldarafmæli sínu og er þar með elsta fyrirtæki bæjarins, auk þess að vera eitt þeirra stærstu. Nýsköpunarverðlaun Akureyrarstofu voru veitt ferðaþjónustufyrirtækinu Saga Travel, fyrirtæki sem starfað hefur siðan 2009 og gert virkilega góða hluti á ferðamannamarkaði á þessum stutta tíma.
Að síðustu voru veittar viðurkenningar fyrir bestu viðskiptaáætlanirnar frá Athafna- og nýsköpunarhelginni sem haldin var á Akureyri í lok febrúar og voru verðlaunin veitt fyrir þrjú efstu sætin. Fyrsta sætið hlaut Guðlaugur Lárusson fyrir viðskiptaáætlunina Viral Trade kauphöllin sem er fyrstu frjálsi markaðurinn fyrir rafrænar eignir í stafrænum kerfum, annað sæti kom í hlut Birkis Arnar Péturssonar og Egils Heinesen fyrir viðskiptaáætlunina Whale Buddy, þar sem markmiðið er að auðvelda ferðamönnum í hvalaskoðun að njóta leiðsagnar óháð tungumáli. Þriðja sætinu deildu tvö verkefni, annarsvegar Campalo sem er fyrsta alþjóðleg bókunarkerfið fyrir tjaldsvæði. Hrafnhildur Karlsdóttir tók á móti verðlaununum og hinsvegar tók Ingi Ragnar Sigurbjörnsson á móti þriðju verðlaunum fyrir hugmynd sem gengur út á að nýta íslensk strá sem tannstöngla.