Anna Rósa Magnúsdóttir er hér mætt með girnilegar uppskriftir í matarkrók vikunnar. Ég ætla að bjóða upp á uppskrift af grænmetislasagne sem ég hef nýlega eignast og varð strax einn af mínum uppáhaldsréttum. Ég bauð upp á þennan rétt í matarboði fyrir stuttu og þá var haft á orði að þetta væri með því betra sem gestir höfðu smakkað. Ekki láta hugfallast þó að uppskriftin sé löng en þetta er mjög einfalt í framkvæmd. Í eftirrétt ætla ég að bjóða upp á skyrköku með appelsínuhlaupi en eftir allt þetta grænmeti hlýtur að vera í lagi að leyfa sér smá, segir Anna Rósa.
Grænmetislasagne með ostrusósu, engiferi og kókos
3 msk. olía
1 kg blandað grænmeti, skorið í bita t.d. laukur, paprika, blómkál, spergilkál, baunir, kúrbítur, gulrætur, sætar kartöflur eða hvað sem hver vill
lasagneblöð
ostur
kókosflögur
Ostrusósa
4 dl ostrusósa
½ dl tómatssósa
½ dl sætt sinnep
2 msk. balsamik edik
2 msk. hunang
1 msk. paprikuduft
½ msk karrí
1 tsk. rósapipar
2 msk. rifið engifer
5 hvítlauksgeirar
½ chili aldin
Allt hráefnið sett í matvinnsluvél og maukað vel.
Kókossósa
300 ml kókosmjólk
2 hvítlauksgeirar
2 tsk. múskat
salt
pipar
sósujafnari
Setjið allt nema sósujafnara í pott og hleypið suðunni upp. Þykkið þá sósuna með sósujafnara.
Steikið grænmetið í olíu á pönnu í ca. 2 mín. Hellið ostrusósunni á pönnuna og látið krauma í aðrar 2 mín. Leggið lasagneblöð í botnin á eldföstu móti. Setjið þunnt lag af kókossósunni yfir lasagneblöðin og dreifið hluta af grænmetinu yfir kókossósuna. Leggið lasagneblöð yfir grænmetið og endurtakið þannig að það verði 3-4 lög af grænmeti. Dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 190°C í 20 mín. Þegar 5 mín. eru eftir af eldunartímanum er rétturinn tekinn út og kókosflögum dreift yfir, svo aftur inn í ofninn restina af tímanum.
Skyrkaka með appelsínuhlaupi
1 pk homblest kex
3-4 msk. smjör
2 egg
2 dl sykur
500 g hreint skyr
¼ l rjómi
1 tsk. vanilludropar
Homblest kexið er mulið og bræddu smjörinu blandað saman við kexmulninginn og þjappað í botn á formi. Þeyta saman egg og sykur og skyrinu síðan bætt út í og þeytt við. Þeyta rjóma og vanilludropa í annarri skál og blanda varlega saman við skyrblönduna. Síðan er þessu hellt yfir kexið.
Appelsínuhlaup
2 plötur matarlím
30 g sykur
½ dl vatn
1 stór appelsína eða 2 litlar
½ sítróna
Matarlímið er sett í bleyti. Sjóða saman vatn og sykur og setja síðan matarlímið út í. Pressa safa úr appelsínum og sítrónu og hella í gegnum sigti út í sykurlöginn. Kæla um stund og hella svo hlaupinu yfir skyrkökuna.