Á um 85% af landinu er gott GSM-samband en á um 15% af landinu er lélegt eða ekkert GSM-samband. Strandirnar á Vestfjörðum og einstaka staðir á hálendi eru þeir staðir sem ekkert eða lélegt samband er á. Þetta kemur fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Alþingi, um GSM-samband á landinu.
Sigmundur spurði um hvað áætlað sé að margir sveitabæir á landinu séu án GSM-sambands: Á 93,4% af 5.039 bæjum er gott GSM-samband innan húss. Á 5,3% bæja er tæpt GSM- samband innan húss. Á 1,3% bæja er ekkert GSM-samband innan húss, eða samtals á 64 bæjum. Á sumum þeirra síðastnefndu er hægt að ná einhverju GSM-sambandi utan húss í námunda við bæinn.
Einnig spurði þingmaðurinn hvað áætlað sé að langur kafli á þjóðvegi 1 sé án GSM-sambands: Á 99,27% af þjóðvegi 1 er gott GSM-samband inni í bíl. Á 0,69% af þjóðvegi 1 er tæpt GSM-samband inni í bíl. Á 0,04% af þjóðvegi 1 næst ekkert samband inni í bíl, eða á um 500 m kafla samtals.
Loks var spurt hvar á landinu stærstu svæðin nálægt byggð séu án GSM-sambands: Að mestu leyti er um að ræða afskekkt svæði á landinu. Lélegt eða ekkert samband er á 11,8% af öllu landi lægra en 400 m yfir sjávarmáli, þ.m.t. eyðisandar, afskekktir dalir og hásléttur.