Glæsilegur 2-0 sigur Þórs/KA í kvöld

Þór/KA vann sinn fimmta leik í röð í Pepsi- deild kvenna í knattspyrnu er liðið sigraði Breiðablik með tveimur mörkum gegn engu er liðin mættust á Akureyrarvelli í kvöld. Það var fyrirliði Þórs/KA, Rakel Hönnudóttir, sem skoraði bæði mörk leiksins í kvöld. Heimastúlkur voru ávallt skrefinu á undan í leiknum og það tók þær rétt um sex mínútur að skora fyrsta mark leiksins. 

Rakel Hönnudóttir slapp þá inn fyrir vörn Breiðabliks og skoraði örugglega framhjá markverði gestanna og kom heimastúlkum í 1-0. Á 16. mínútu var Rakel nálægt því að bæta við sínu öðru marki í leiknum er hún skaut boltanum yfir markið úr fínu færi inn í teig gestanna.

Blikastúlkur fengu fá færi í fyrri hálfleik. Besta færi þeirra kom á 24. mínútu er Sara Björk Gunnarsdóttir skallaði boltann rétt framhjá marki heimastúlkna.

Eftir hálftíma leik bætti Rakel Hönnudóttir sínu öðru marki við í leiknum fyrir Þór/KA. Mateja Zver átti þá fínt skot fyrir utan teig að marki Breiðabliks sem small í stönginni, boltinn barst út í teig þar sem Rakel var mætt og fylgdi vel á eftir með góðu skoti.

Staðan 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Þórs/KA stúlkur mættu sprækar í seinni hálfleikinn og voru langt frá því að vera saddar. Bojana Besic átti fínt skot að marki gestanna á 49. mínútu er hún tók boltann á lofti inn í teig gestanna en skot hennar var varið.

Gestunum gekk illa að skapa sér marktækifæri og komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Þórs/KA. Næst því að skora fyrir Breiðablik í seinni hálfleik var Sandra Sif Magnúsdóttir er hún skaut boltanum í þverslána rétt fyrir utan teig heimastúlkna.

Rakel Hönnudóttir var nálægt því að bæta við sínu þriðja marki í leiknum skömmu fyrir leikslok er hún skallaði boltann í slána eftir fyrirgjöf frá Mateju Zver.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Akureyrarvelli í kvöld, 2-0 sigur Þórs/KA. Afar mikilvægur sigur heimastúlkna sem eru komnar í bullandi toppbaráttu með sigrinum. Eftir ellefu umferðir hefur Þór/KA 22 stig í fjórða sæti deildarinnar.

Nýjast