Rakel Hönnudóttir slapp þá inn fyrir vörn Breiðabliks og skoraði örugglega framhjá markverði gestanna og kom heimastúlkum í 1-0. Á 16. mínútu var Rakel nálægt því að bæta við sínu öðru marki í leiknum er hún skaut boltanum yfir markið úr fínu færi inn í teig gestanna.
Blikastúlkur fengu fá færi í fyrri hálfleik. Besta færi þeirra kom á 24. mínútu er Sara Björk Gunnarsdóttir skallaði boltann rétt framhjá marki heimastúlkna.
Eftir hálftíma leik bætti Rakel Hönnudóttir sínu öðru marki við í leiknum fyrir Þór/KA. Mateja Zver átti þá fínt skot fyrir utan teig að marki Breiðabliks sem small í stönginni, boltinn barst út í teig þar sem Rakel var mætt og fylgdi vel á eftir með góðu skoti.
Staðan 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þórs/KA stúlkur mættu sprækar í seinni hálfleikinn og voru langt frá því að vera saddar. Bojana Besic átti fínt skot að marki gestanna á 49. mínútu er hún tók boltann á lofti inn í teig gestanna en skot hennar var varið.
Gestunum gekk illa að skapa sér marktækifæri og komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn Þórs/KA. Næst því að skora fyrir Breiðablik í seinni hálfleik var Sandra Sif Magnúsdóttir er hún skaut boltanum í þverslána rétt fyrir utan teig heimastúlkna.
Rakel Hönnudóttir var nálægt því að bæta við sínu þriðja marki í leiknum skömmu fyrir leikslok er hún skallaði boltann í slána eftir fyrirgjöf frá Mateju Zver.
Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Akureyrarvelli í kvöld, 2-0 sigur Þórs/KA. Afar mikilvægur sigur heimastúlkna sem eru komnar í bullandi toppbaráttu með sigrinum. Eftir ellefu umferðir hefur Þór/KA 22 stig í fjórða sæti deildarinnar.