Gjaldskrárhækkanir óhjákvæmilegar hjá Norðurorku

Franz Árnason forstjóri Norðurorku á Akureyri segir óhjákvæmilegt að einhverjar gjaldskrárhækkanir verði hjá fyrirtækinu en að þeim verði stillt í hóf. Hann segir að gert sé ráð fyrir því að tonnið af heitu vatni hækki um 4,5% frá og með 1. janúar nk.  

"Fastagjald hitaveitu hækkar nú með vísitölu neysluverðs eða um 15% en hefði hækkað um 23% ef fylgt hefði verið byggingavísitölu eins og gert hefur verið undanfarin ár. Aðrar gjaldskrárbreytingar byggja á sama grunni og undanfarin ár." Franz segir jafnframt að hann hafi talið að hækkun hitaveitunnar hefði þurft að vera ekki minni en hjá þeim hitaveitum sem þegar hafa hækkað gjaldskrá eða tæp 10%. Stjórn fyrirtækisins taldi hins vegar ekki hægt að ganga svo langt. Þá liggur fyrir, segir Franz, að auka verði aðhald í rekstri þó það eigi auðvitað ávallt að vera fyrir hendi. Þá slakni á kröfum í góðæri og á þenslutímum eins og verið hafa undanfarið, þar sem vart hefur hafst undan við framkvæmdir.

Hann segir jafnframt að Norðurorka sé í sömu stöðu og flest fyrirtæki í þessu landi og að það sé tilgangslítið að spá í framhaldið að sinni. Rekstur fyrirtækisins sé hins vegar í föstum skorðum og áætlanir hafa staðist. " Það er einungis fjármálaofviðrið sem gerir okkur lífið leitt þessa dagana."

Nýjast