Árið 2011 var metár í komu erlendra ferðamanna til Íslands og hótel víða um land nutu sannarlega góðs af þeirri fjölgun. Gistinætur á íslenskum hótelum árið 2011 reyndust vera samtals 1.488.400 samanborið við 1.309.700 gistinætur árið 2010. Langflestir gistu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu og þar var jafnframt mest fjölgun eða 17%. Það er ánægjulegt til þess að vita að gistinóttum fjölgaði um land allt; um 16% á Suðurnesjum, 9% á Austurlandi, 6% á Norðurlandi og um 3% á Suðurlandi sem og samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða. Í þessum tölum er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann, segir í frétt frá iðnaðarráðuneytinu.