Gert ráð fyrir rekstrarafgangi í fjárhagsáætlun næsta árs

Svalbarðseyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Svalbarðseyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Fjárhagsáætlun Svalbarðsstrandarhrepps fyrir næsta ár var samþykkt á fundi sveitarstjórnar nýlega. Í henni er gert ráð fyrir rekstrarafgangi að fjárhæð 776.000 krónur. Tekjur A-hluta (aðalsjóðs) eru áætlaðar 216 milljónir króna, þar af eru útsvarstekjur 122 milljónir króna, tekjur af fasteignaskatti 21,5 milljónir króna og framlög Jöfnunarsjóðs 55,5 milljónir króna.

Samanlagðar tekjur A- og B-hluta (samstæðu) eru áætlaðar 221,6 milljónir króna, rekstrargjöld A- og B-hluta 211,7 milljónir króna og afskriftir á árinu verða um 13 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru áætlaðir jákvæðir um 4 milljónir króna. Fyrirhuguð fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 20 milljónir og fyrirhuguð fjárfesting í eignarhlutum í félögum er 569.000 krónur. Handbært fé í árslok 2012 er áætlað 167 milljónir króna og langtímaskuldir sveitarfélagins eru um 12 milljónir.

Samkvæmt áætluninni verða laun og launatengd gjöld um 61% af rekstrarútgjöldum sveitarfélagsins sem er nokkru lægra hlutfall en árin 2010 og 2011. Skatttekjur verða um 64% af heildartekjum en framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 25%. Veltufé frá rekstri er áætlað 6,5%, veltufjárhlutfall er áætlað 9,65 og eiginfjárhlutfall er áætlað 0,94.

Í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 voru teknar ákvarðanir um breytingar á gjaldskrám og álagningu á árinu 2012. Breytingarnar taka gildi 1. janúar 2012. Lóðarleiga lækkar úr 2% í 1,75% en álagning fasteignaskatts er óbreytt. Niðurgreiðsla daggæslu í heimahúsi hækkar í 7.250,- kr. á klst. á mánuði. Greitt er fyrir 8 klst. á dag að hámarki. Aðrar gjaldskrár hækka um 5%, að frátöldum gjaldskrám þar sem kveðið er á um tengingu viðvísitölu. Þetta kemur fram á vef Svalbarðsstrandarhrepps.

Nýjast