Gengið um ósnortið land í Orkugöngunni í Mývatnssveit

Orkugangan er almennings skíðaganga sem haldin verður laugardaginn 11. apríl nk. kl. 10:00. Gangan hefst við Kröfluvirkjun í Mývatnssveit, henni lýkur í nágrenni Húsavíkur í um 60 km fjarlægð og er þetta lengsta skíðagangan hér á landi. Landsvirkjun er aðalstyrktaraðili göngunnar en Mývetningur Íþrótta- og Ungmennafélag og björgunarsveitin Stefán eru framkvæmdaaðilar.  

Björgunarsveitin sér einnig um brautarlagningu og hefur eftirlit með öryggi þátttakenda. Gengið verður að mestu um ósnortið land þar sem sjá má margar náttúruperlur sem og svæði sem jarðskjálftar og eldsumbrot hafa mótað og má víða enn sjá merki um þá orku sem býr í þessu svæði, einnig að virða fyrir sér þá leið sem verður notuð til að flytja orku í væntanlegt álver við Húsavík og er nafn göngunnar dregið af því. Leiðin verður troðin fyrir þátttakendur og lagt verður að minnsta kosti eitt spor alla leið. Lítið verður um erfiðar brekkur og er lækkunin á leiðinni um 400 metrar þ.e. byrjað í ca. 500 og endað í ca. 100 metra hæð yfir sjávarmáli. Á meðan göngu stendur getur göngufólk fengið hressingu á 10 km fresti, bæði heita orkudrykki, og orkustykki. Skíðasvæðið við Kröflu verður opið fram eftir degi en þar er togbraut og góð aðstaða til skíðaiðkunar. Þátttökugjald er 5.000 kr. og er innfalið í því aðgangur að Jarðböðunum við Mývatn og kaffihlaðborð eftir gönguna. Allar nánari upplýsingar og skráning er hjá Mývatnsstofu í síma 464 4390 eða í netfang orkuganga@visitmyvatn.is

Nýjast