Á dögunum var sagt frá því í fréttum RÚV að börn og unglingar sem þurfa á þjónustu barna- og unglingadeildar Landsspítalans (BUGL) að halda þurfi að bíða mánuðum saman. Í sömu frétt er vitnað til orða móður sem segir að veikindi barnsins hafi ágerst vegna biðarinnar. Það gefur auga leið að ekki er hægt að fá meðferð hjá sálfræðingi meðan beðið er og aðeins er mögulegt að fá tíma hjá geðlækni fyrir börn í gegnum BUGL. Móðirin hefur rétt fyrir sér, það er neyðarástand.
Yfirlæknir á BUGL tekur undir orð móðurinnar og telur að efla þurfi þjónustu utan spítalans. Mörgum er vísað þar frá og yfirlæknir BUGL telur að það eigi að veita þessa þjónustu annarsstaðar, áður en kemur til úrræða BUGL. Raunveruleg staða er þannig að enginn barna- og unglingageðlæknir starfar á heilbrigðisstofnunum utan höfuðborgarinnar!
Ekkert greiningarteymi á Norður- og Austurlandi.
Á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands eru tilgreindar stofnanir sem hafa greiningarteymi á sínum vegum, en greiningarteymin hafa, m.a. það hlutverk á höndum að vísa börnum og unglingum til sálfræðinga. Stofnanirnar sem eru tilgreindar eru Barna- og unglingageðdeild LSH, Þroska og hegðunarstöð, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins. Ekkert greiningarteymi er á Norður- og Austurlandi. Á heimasíðu SÍ má sjá nöfn sálfræðinga sem hafa samning við Sjúkratryggingar Íslands og greiningarteymin vísa til. Þegar þessi grein er skrifuð eru það fimm aðilar á öllu landinu! Það er enginn barna- og unglingageðlæknir á Norður- og Austurlandi með samning við SÍ þannig að hægt sé að vísa börnum og unglingum í meðferð sálfræðinga í heimabyggð. Aðeins þarf að breyta reglugerð til að svo geti orðið.
Nú er það einungis á færi efnameiri foreldra að sækja hjálp fyrir börn sín þar sem samningur milli sálfræðinga og Sjúkratrygginga Íslands þarf að vera fyrir hendi til að SÍ taki þátt í lækniskostnaði barnsins. Meðan þetta ástand ríkir þurfa foreldrar að greiða 9.000 kr. - 15.000 kr. fyrir hvert viðtal hjá sálfræðingi. Það er einnig umhugsunarvert hvort það er eðlilegt að barn eða unglingur þurfi að fara til höfuðborgarinnar með tilheyrandi kostnaði til þess að fá greiningu og viðeigandi meðferð.
Fram kemur í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi að eitt stöðugildi sálfræðings er við barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri sem, m.a. tekur þátt í mati á bráðatilvikum, t.d. eftir sjálfsvígstilraunir. Þannig að ef barn á að fá einhverja hjálp, miðað við stöðuna eins og hún er í dag, þarf það að ganga svo langt að ætla að taka eigið líf eða sýna aðra alvarlega sjálfskaðandi hegðun svo eftir því verði tekið. Auk þess má spyrja hvort almenn barnadeild geti með góðu móti sinnt sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu barna- og unglinga.
Fullyrða má að geðheilbrigðisþjónusta barna- og unglinga á svæðinu sé í molum. Engin barna- og unglingageðdeild er rekin á vegum hins opinbera á Norður- og Austurlandi. Staðan er mjög alvarleg.
Einn sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlæknir sinnir 500 einstaklingum
Við Sjúkrahúsið á Akureyri var þar til fyrir tveimur árum starfrækt barna- og unglingageðdeild, starfsemin var aðallega rekin sem göngudeildarþjónusta og fór starfsemin vaxandi en vegna skipulagsbreytinga var deildin lögð niður. Hægt er að draga þá ályktun að það hafi aldrei verið raunverulegur áhugi fyrir slíkri deild þar sem fjármagn eyrnamerkt deildinni skilaði sér aldrei að fullu en var nýtt í aðra starfsemi Sjúkrahússins. Auk þess voru stöðuheimildir ekki nýttar til fullnustu þrátt fyrir augljósa þörf. Er þetta eðlilegt? Í dag er einn sjálfstætt starfandi barna- og unglingageðlæknir sem sinnir um það bil 500 einstaklingum á Norður- og Austurlandi á ári. Þörfin er brýn.
Eins og áður sagði hefur ekki verið gerður samningur þannig að barna- og unglingageðlæknir geti vísað börnum og unglingum í viðeigandi meðferð hjá sálfræðingi á svæðinu og í raun er samningurinn við lækninn útrunninn og óvissan alger. Foreldrar vita ekkert hvert stefnir.
Fjármagn frá hinu opinbera
Vitað er að Sjúkrahúsið á Akureyri fékk 20 milljónir, aukalega við þær 60 milljónir á ári, sem ætlaðar voru til reksturs deildarinnar í lok árs 2012 þegar hún var lögð niður. Spurning er hvort Sjúkrahúsið á Akureyri fái enn fjármagn frá hinu opinbera til reksturs barna- og unglingageðdeildar, sem ekki hefur verið starfrækt í tvö ár. Þeir sem sóttu þessa þjónustu hafa nú í engin hús að venda. Er í lagi að leggja heila deild niður án þess að það hafi einhverjar afleiðingar?
Nú hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp um aðgerðaáætlun um geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Því ber að fagna, en það mun taka tíma að fá hana til framkvæmdar en það er vel hægt að koma vissum þáttum af stað ef vilji er fyrir hendi. Á undanförnum árum hafa margar úttektir og skýrslur verið lagðar fram, nú er kominn tími til aðgerða.
Það er mörgum spurningum ósvarað og þessari grein er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um þá grafalvarlegu stöðu sem er í geðheilbrigðismálum barna- og unglinga á landinu og þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi.
Anna Kolbrún Árnadóttir, Akureyri