Grasvöllurinn á Húsavík kemur greinilega ekki vel undan vetri, eins og afar glöggt má sjá á þessari yfirlitsmynd Gauks Hjartarsonar. Ekki kemur á óvart að gervigrasvöllurinn er iðagrænn, en sá gamli er eins og bleikur akur, en grasið í kringum hann þegar orðið vel grænt.
Menn hafa verið að velta ástandi vallarins fyrir sér á facebook og vallarmálum almennt. Pétur Helgi Pétursson lagði til að einnig yrði lagt sígrænt á aðalvöllinn eftir nokkur ár, það væri varla hægt að setja niður kartöflur í þann gamla nú!
Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi Garðvíkur, taldi að hér dygði ekkert annað að plægja völlinn upp og tæta, það vantaði lyftingu í jarðveginn og sennilega bætiefni í moldina. „Og nú tala ég sem gamall bóndi, alvanur að fást við kalin tún, en ekki sem garðyrkjugrósser.“ Skrifaði Guðmundur og bætti við að forvitnilegt væri að taka sýni úr jarðvegi vallarins og mæla sýrustig moldarinnar, en súr jarðvegur væri víða vandamál og gras úr súrum jarðvegi mun viðkvæmara fyrir kali en ella.
Guðmundur Árni Ólafsson blandaði sér í málið og sagði að oft hafi völlurinn litið illa út en jafnað sig samt. Það hafi verið mokað af vellinum seint í vor og hann verið nokkuð grænn þá en síðan gulnað. JS