Kaffihúsastemning mun ríkja í gamla Presthúsinu til kl. 22.00 þennan fyrsta dag sumarsins þar sem ilmur nýbakaðs bakkelsis úr héraði mun fylla vitin og tertur, brauð og drykkir gæla við bragðlauka gesta. Í Gamla bænum í Laufási er hægt að upplifa lifnaðarhætti Íslendinga um 1900 með því að ganga í gegnum eldhúsið, brúðarhúsið, piltshúsið og stóru stofuna svo eitthvað sé nefnt, virða fyrir sér þá tæki og tól, húsgögn og annað sem einkenndi þetta tímabil.
Í sumar gefst gestum einstakt tækifæri til þess að fylgjast með endurbótum og uppbyggingu baðstofunnar, einni af aðal byggingu bæjarins. Torfhleðslumaður er við störf sem og smiðir sem láta hið gamla mæta því nýja í því efni sem unnið er með. Gamli bærinn í Laufási er í umsjón Minjasafnsins á Akureyri en í eigu Þjóðminjasafns Íslands , sem stendur fyrir endurbótum á honum. Veistu hvað klambra, strengur, gáttatorf eða þollur er? Ef ekki þá er tækifærið til þess að komast að því í sumar í Gamla bænum í Laufási, segir í fréttatilkynningu.