Byggingaráform á klöppunum á Kotárborgum á Akureyri, svæðinu á milli Háskólans og leikskólans Pálmholts, hafa minnkað nokkuð frá fyrri tillögum Akureyrarbæjar. Gert var ráð fyrir 260 nýjum íbúðum á svæðinu en nú stendur til að reisa 100-150 íbúðir á reit fast við Gerðahverfi og svo ótilteknum fjölda íbúða fyrir háskólann á miðjum klöppunum.
Íbúar í Gerðahverfi og nálægum svæðum hafa verið uggandi yfir fyrirhuguðum framkvæmdum í Kotárborgum og spruttu upp heitar umræður um málið fyrir ári síðan þegar Akureyrarbær kynnti nýtt aðalskipulag.
Snævarr Örn Georgsson, verkfræðingur og húseigandi í Kambargerði, gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu. Hann segir að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir færri íbúðum nú en í fyrri tillögum sé enn um of mikla byggð að ræða.
„Þetta eyðileggur útivistargildi og framtíðarverðmæti klappanna. Þessir tveir skipulögðu byggingarreitir skilja eftir autt svæði á milli sín sem freistandi væri að nýta undir byggð í framtíðinni og eftir sitjum við með mjóa rönd meðfram Glerá sem nýtist lítið sem ekkert,“ segir Snævarr og bætir við: „Ekki einu sinni þéttingarsinnunum í Reykjavík dettur í hug að þrengja svona að Elliðaánum þó að þörfin fyrir byggingarland þar sé mun meiri en á Akureyri." Athugasemdafrestur er til kl. 16:00 á föstudaginn.
Nánar verður rætt við Snævarr og fjallað ítarlegra um málið í Vikudegi sem kemur út á morgun.