Gæsluvarðhald yfir karlmanni á Akureyri staðfest

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir karlmanni á Akureyri sem grunaður er um tíu brot, meðal annars fyrir að hafa ráðist að konu með hamri, hótað starfsfólki fjölskyldudeildar bæjarins lífláti, ógnað mönnum með keðjusög, selt fíkniefni og átt hlutdeild í ráni. Þessi brot og fleiri er maðurinn talinn hafa framið frá því í haust. Maðurinn hefur setið í varðhaldi síðan í lok mars og var það framlengt í héraðsdómi í síðustu viku. Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að komið hefði í ljós við leit í klefa hans að hann hefði útvegað sér nettengingu og verið farinn að hóta fólki. Því telur dómurinn líklegt að maðurinn hafi ekki látið af brotastarfssemi sinni. Maðurinn hefur hlotið 24 refsidóma frá árinu 1994, síðast í júní í fyrra. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 16. maí. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Nýjast