Ólafur G. Vagnsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar segir ekki tímabært að vera með yfirlýsingar á þessari stundu um vænleika eða holdafar, fyrst verði fé að koma af fjalli og menn að skoða það í réttunum. Þá hafi ekki komið marktækar tölur frá sláturleyfishöfum enn. Almennt eigi menn þó von á þokkalegum vænleika og góðu holdafari þar sem úthagi var seinn til í vor og ætti því að vera kjarnmikill nú í haust.
Um aðra helgi verður svo haldið áfram að rétta í Eyjafirði, Árskógsrétt á Árskógsströnd verður laugardaginn 12. september, sem og Reistarárrétt, Þorvaldsdalsrétt og Þórustaðarétt, allar í Hörgárdal, Staðarbakkarétt einnig í Hörgárdal verður degi fyrr, 11. september. Loks má nefna að réttað verður í Reykjarétt í Ólafsfirði og Glerárrétt við Akureyri laugardaginn 19. september nk.
Ólafur segir að heyskap sé nú víðast lokið og hafi gengið mjög vel framan af, síðan hafi hægt á sprettu vegna þurrka og svo loks þegar fór að rigna og spretta orðin viðunandi voru þurrkar stopulir og heyskapur því í það heila verið erfiður á köflum að minnsta kosti.