Félagið Lundsgolf ehf. annast rekstur golfvallarins en það er í eigu Þórólfs Guðnasonar og Herdísar Jónsdóttur, ábúenda í Lundi. Stofnaður hefur verið golfklúbbur um völlinn sem heitir GLF - Golfklúbburinn Lundur Fnjóskadal. Opnunarhátíðin fór fram í Stekk, nýreistu húsnæði við suðurenda vallarins og á hana mættu rúmlega 200 manns í blíðskaparveðri, þar á meðal gestir af bæjunum í sveitinni, úr sumarhúsabyggðinni í Lundsskógi, sveitarstjórnarmenn, gestir frá öðrum golfklúbbum, framkvæmdastjóri GSÍ, aðilar frá íþróttasamtökum, fjölmiðlamenn og fleiri.
Að lokinni athöfn í Stekk klippti Þórólfur Guðnason á borða yfir gangstígnum inn á vallarsvæðið. Síðan gengu kylfingar og aðrir gestir að 1. teig og þar sló Brynjar Sæmundsson golfvallarhönnuður fyrsta höggið á vellinum. Með formlegum hætti voru fimm hópar ræstir til að spila hring á vellinum, síðan var hann opinn öllum það sem eftir lifði laugardags og einnig á sunnudag.
Ákveðið hefur verið að hafa sérstakt kynningarverð á vellinum í haust, það kostar 1.000 kr. að fara hringinn og 1.500 kr. fyrir hjón. Unglingar 13-16 ára greiða 500 kr. og frítt fyrir 12 ára og yngri. Stekkur verður opinn kl. 17 - 20 virka daga kl. 10 - 18 um helgar og þar er hægt að fá veitingar.