Fyrsta brautskráningin frá RES Orkuskóla á Akureyri

Fyrsta brautskráning RES Orkuskóla á Akureyri fór fram við hátíðlega athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri í gær. Í heild voru þrjátíu nemendur brautskráðir með M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkufræðum af þremur námsbrautum en nemarnir koma frá níu þjóðlöndum. Námið hefur staðið í samfleytt eitt ár og að því komið um 70 kennarar bæði innlendir en fyrst og fremst þekktir erlendir prófessorar og fræðimenn.  

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, var viðstödd brautskráninguna, auk rektora og fulltrúa Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, fulltrúa Tækniháskólans í Varsjá, varasendiherra Bandaríkjanna og fjölda annarra gesta. Athöfnin í Ketilhúsinu var í beinni útsendingu á Netinu og þannig gátu aðstandendur nemenda fylgst með henni. RES Orkuskóli hefur nána samvinnu með Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og veita háskólarnir tveir sameiginlega þá meistara-prófsgráðu sem nemendur fá. Þetta er í fyrsta skipti sem háskólar hér á landi koma sameiginlega að brautskráningu með þessum hætti. Nemendurnir sem útskrifast í ár eru af þremur áherslusviðum: jarðhitaorku, lífmassa og vistvænu eldsneyti, efnarafölum og vetni. Á nýhöfnu skólaári var fjölgað um eina braut við skólann en stefnt er að því að námsbrautir verði alls sjö innan fárra ára.

„Þegar við hófum undirbúning að RES Orkuskóla fyrir fimm árum þá gerðum við ítarlega leit um allan heim án þess að finna nokkra hliðstæðu við okkar hugmynd. Víða var að finna við erlenda háskóla deildir sem komu að hluta inn á okkar nám en okkar markmið frá byrjun var að bjóða í RES upp á nám á mismunandi sviðum endurnýjanlegra orkugjafa. Sömuleiðis settum við okkur það markmið að fara ekki af stað með námið fyrr en við hefðum gert samninga við virta erlenda háskóla, bæði til að tryggja okkur leið að nemendum í hæsta gæðaflokki, sem og kennurum. Með því undirstrikum við hversu miklar kröfur eru gerðar í náminu hjá okkur. Nemendahópurinn sem lýkur prófi við skólann í dag er fólk í hæsta gæðaflokki sem kemur til með að vera leiðandi í orkumálum þjóða víða um heim á komandi árum og fyrir okkur Íslendinga verður mikils virði að þetta fólk hafi hlotið sína menntun hér á landi. Þetta er því stór stund ekki bara fyrir bæjarfélagið og háskólasamfélagið á Íslandi, heldur einnig í eflingu menntaframboðs á sviði endurnýjanlegra orkugjafa á heimsvísu og þróun framtíðar orkugjafa," segir dr. Björn Gunnarsson, forstöðumaður RES Orkuskóla.

Einstakur námsárangur

Nú þegar hefur nýr nemendahópur hafið meistaranám í endurnýjanlegum orkufræðum við RES Orkuskóla og voru í þetta sinn valdir 40 nemendur úr um 100 umsóknum. Umsóknir vegna skólaársins 2010-2011 eru einnig teknar að berast, sem er til marks um að skólinn vekur athygli í háskólasamfélaginu víða um heim. Við athöfnina í gær var Maciej Lukawski frá Póllandi veitt sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi námsárangur á jarðhitaorkubraut RES. Meistaraprófsritgerð hans ber titilinn „Design and Optimization of Universal Organic Rankine Cycle Power Plant for European Conditions" og fyrir hana fékk hann 10 í einkunn. Meðaleinkunn hans á prófi er 9,45, sem þykir einstæður árangur í jafn kröfuhörðu námi og raun ber vitni. Enda er ljóst að erlendir háskólar hafa þegar sýnt þessum nemanda, sem og fleirum úr útskriftarhópi RES mikinn áhuga.

Um RES Orkuskólann

Orkuvörður ehf. eiga og starfrækja RES Orkuskóla. Hluthafar í Orkuvörðum eru Þekkingavörður ehf., RARIK, KEA, Gift fjárfestingarfélag, Landsvirkjun, Norðurorka, Akureyrarbær og Landsbanki Íslands. Eins og áður segir eru Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri meðal nánustu samstarfsaðila skólans, að ótöldum tugum háskóla víða um heim.

Nýjast