Fyrsta brautskráningarathöfn RES Orkuskóla á Akureyri

Á morgun, föstudaginn 20. febrúar kl. 16.30, verður fyrsta brautskráningarathöfn RES Orkuskóla á Akureyri. Við athöfnina, sem fram fer í Ketilhúsinu, brautskrást 30 meistaranemar frá níu löndum með M.Sc. gráðu í endurnýjanlegum orkufræðum. Þetta er fyrsta meistaranám sinnar tegundar á Íslandi og raunar á skólinn sér enga hliðstæðu í heiminum.   

Því er óhætt að segja að um merkilegan viðburð sé að ræða í íslenskri menntasögu. Mikil ásókn er í nám við skólann og auk öflugra nemenda frá virtustu háskólum heims dregur hann að sér virta kennara víðs vegar að. Við brautskráningarathöfnina flytja ávarp þau Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, Kristín Vala Ragnarsdótir, forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Tadeusz Kulik, aðstoðarmaður Tækniháskólans í Varsjá, Tomas Miklis, fulltrúi útskriftarnema og Björn Gunnarsson, forstöðumaður RES Orkuskóla.

Nýjast