Fyrirtækið G.V. Gröfur bauð lægst í lagningu Dalsbrautar

Tilboðin opnuð en fyrir liggur stjórnsýslukæra vegna afgreiðslu bæjarstjórnar á deiliskipulaginu.
Tilboðin opnuð en fyrir liggur stjórnsýslukæra vegna afgreiðslu bæjarstjórnar á deiliskipulaginu.

Fyrirtækið G.V. Gröfur ehf. átti lægsta tilboð í lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut en tilboðin voru opnuð hjá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar eftir hádegi í dag. Alls bárust þrjú tilboð í verkið og voru þau öll undir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á um 72,7 milljónir króna. G.V. Gröfur buðu rúmar 53,8 milljónir króna, eða um 74% af kostnaðaráætlun. G. Hjálmarsson hf. átti næst lægsta tilboð, 62,9 milljónir króna, eða 86,51% af kostnaðaráætlun og Finnur ehf. bauð rúmar 64,3 milljónir króna, eða 88,51% af kostnaðaráætlun. Búið að er að gefa út framkvæmdaleyfi vegna Dalsbrautar. Hins vegar liggur fyrir stjórnsýsluákæra til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna ákvörðunar Bæjarstjórnar Akureyrarkaupstaðar að samþykkja deiliskipulag fyrir Dalsbraut frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. Fram kemur í útboðsgögnum að gerður sé fyrirvari um að leyfi fáist til framkvæmda innan frests til að taka tilboði. Framkvæmdir geti ekki hafist fyrr en niðurstaða kærunefndar liggur fyrir. Ráðgert er að málið verði tekið fyrir á fundi framkvæmdaráðs á morgun föstudag. Það eru framkvæmdadeild og Norðurorka sem standa að útboðinu en um er að ræða jarðvegsskipti, yfirborðsfrágang og lagningu fráveitu-, raf- og vatnslagna í Dalsbraut og stíga milli Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar. Heildarlengd götu er um 800 m og stíga um 1.700 m. Verkið er áfangaskipt en í útboðsauglýsingu kemur fram að verkinu skuli að fullu lokið fyrir 15. september 2012.

Nýjast