Fyrirtæki Símans annast farsíma- tengingar um borð í skipum

On-Waves, dótturfyrirtæki Símans, er fyrirtæki sem sérhæfir sig í að koma skipum í fjarskiptasamband.  Fyrirtækið er leiðandi á markaði fyrir fjarskiptasambönd til sæfarenda og veitir farsímasamband yfir opið hafið.  

Þannig geta farþegar skemmtiferðaskipa, hvort sem er í Evrópu eða Ameríku, talað í GSM síma sína og notar Síminn kerfin sín og samband um gervihnött til að veita On-Waves þessa þjónustu. Auk þess að veita þjónustuna um borð í skemmtiferðaskipum og ferjum er hún einnig veitt í flutningaskipum, einkaþotum og á afskekktum landsvæðum.

On-Waves hefur nú leitað til Mílu ehf. eftir samstarfi varðandi ljósleiðaratengingar í skipum. Fyrsta verkefnið sem Míla vann fyrir On-Waves var á Akureyri í gær, 18. júní, en þá tengdu tveir starfsmenn Mílu á Akureyri ljósleiðara milli tækjaskápa um borð í skemmtiferðaskipinu Mona Lisa.

Annað verkefni á vegum On-Waves er tenging multimode ljósleiðara milli tækjaskápa í skemmtiferðaskipinu MSC Serenata, sem er systurskip MSC Fantasia. Tveir starfsmenn Mílu eru í startholunum að fara til Frakklands, og er ferðinni heitið til St Nazaire í Frakklandi. Búist er við því að verkið taki um 3 daga .  Endanleg dagsetning fyrir þetta verkefni er ekki komin, en búist er við því að það verði í júní. On-Waves er þriðja stærsta fyrirtækið í heimi sem býður þessa þjónustu og hefur nú gert samninga við 53 skip og 43 þeirra eru komin með þjónustuna virka.

Nýjast