20. nóvember, 2008 - 15:38
Bæjarráð Akureyrar furðar sig á því að Háskólinn á Akureyri hafi ekki átt aðkomu að nýstofnuðum
samstarfsvettvangi um Lýðheilsurannsóknir. Tvær helstu lýðheilsurannsóknir á Íslandi hafa verið unnar á vegum
Háskólans á Akureyri og þar er öflug heilbrigðisdeild sem sinnir jafnframt rannsóknum.
Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs frá því í morgun. Þar var lögð fram viljayfirlýsing milli
Heilbrigðisráðuneytis, Lýðheilsustöðvar, Háskólans í Reykjavík og Háskóla Íslands varðandi samstarfsvettvang um
lýðheislurannsóknir. Ennfremur segir í bókun bæjarráðs: Þegar ákvörðun lá fyrir að Lýðheilsustöð
yrði ekki staðsett á Akureyri var um það rætt að rannsóknastarf stofnunarinnar kynni að verða staðsett hér. Þegar til kom var
rannsóknasvið Lýðheilsustöðvar einnig sett á stofn innan veggja stofnunarinnar í Reykjavík.
Bæjarráð mótmælir harðlega þessum vinnubrögðum og beinir því til þeirra er málið varðar að
Háskólinn á Akureyri verði þátttakandi í samstarfsvettvangi um lýðheilsurannsóknir.