Fuglaskoðunarhús í Friðlandi Svarfdæla tekið í notkun

Hollvinafélag Húsabakka sem stendur fyrir uppbyggingu Náttúruseturs á Húsabakka í Svarfaðardal, hefur tekið í notkun fuglaskoðunarhús í Friðlandi Svarfdæla.  Bygging hússins er liður í átaki félagsins í að bæta aðgengi  að friðlandinu sem bændur í Svarfaðardal höfðu forgöngu um að stofna árið 1972.  

Nýja fuglaskoðunarhúsið  stendur við Tjarnartjörn skammt neðan við Húsabakka í Svarfaðardal en frá Húsabakka liggja stikaðar gönguleiðir um friðlandið.  Í húsinu eru fuglabækur á þrem tungumálum og veggskylti með upplýsingum fyrir áhugasama fuglaskoðara. Það  er 4 x 2 metrar að flatarmáli og rúmar auðveldlega litla skólahópa en Náttúrusetrið á Húsabakka býður m.a. upp á fræðslu um fugla og umhverfismennt fyrir grunnskóla- og leikskólabörn.

Fyrirhugað er að reisa annað Fuglaskoðunarhús við Hrísatjörn skammt frá Dalvík auk þess sem þar verða lagðir stígar með hvers kyns fróðleik um fuglalífið og náttúruna.  Í vor tók Grunnskóli Dalvíkurbyggðar Friðland Svarfdæla í fóstur en í því felst m.a. að krakkarnir sjá um eftirlit og viðhald á stígum, stikum og skiltum en Dalvíkurbyggð leggi þeim til efni og aðstöðu.

Nýjast