Frystitogarinn Norma Mary er að sigla inn Eyjafjörðinn þessa stundina á leið sinni til Akureyrar. Skipið er að koma frá Póllandi en þar hefur það verið frá því í sumar. Í Póllandi var skipið lengt um tæpa 14 metra og skipt var um aðalvél. Norna Mary er skráð í Hull en togarinn er í eigu Onward Fishing Ltd, dótturfélags Samherja. Frekari lagfæringar og endurbætur verða gerðar á skipinu á Akureyri.
Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að starfsmenn Kælismiðjunnar Frosts hafi verið að vinna við niðursetningu frágang og tengingu á frystikerfi í Normu Mary í Póllandi og munu þeir ljúka þeirri vinnu á Akureyri. Þá hefur Slippurinn smíðað viðbætur fyrir vinnsludekk skipsins og verða þær settar um borð á Akureyri. Kristján gerir ráð fyrir að Norma Mary fari svo til veiða innan fjögurra vikna.
Tvö af skipum Samherja, Kristina og Vilhelm Þorsteinsson, hafa verið á loðnuveiðum og segir Kristján að veiðarnar hafi gengið ágætlega. Nú sé þess beðið að loðnukvótinn verði aukinn en Hafró kom úr rannsóknarleiðangri í fyrradag.