Frönsk kvikmyndahátíð í Borgarbíói á Akureyri

Franska kvikmyndahátíðin, sem Alliance française í Reykjavík, sendiráð Frakklands á Íslandi og Græna ljósið standa fyrir, teygir anga sína einnig til Akureyrar. Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin kemur til Akureyrar og að þessu sinni verða fleiri myndir sýndar norðan heiða en áður hefur verið. Hátíðinni lauk í Reykjavík í síðustu viku en myndirnar eru sýndar áfram í kvikmyndahúsum í borginni. Hátíðin á Akureyri stendur yfir í Borgarbíói dagana 17.-20. febrúar. Franska kvikmyndahátíðin er annar stærsti kvikmyndaviðburður Íslands, næst á eftir Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík. Árlega sækja um 10.000 gestir frönsku kvikmyndahátíðina sem er fyrsti stóri menningarviðburður ársins í Reykjavík. Eins og verið hefur er fjölbreytnin í fyrirrúmi á hátíðinni og það breytist ekki í ár. Sýndar verða ýmsar tegundir gæðakvikmynda frá Frakklandi, auk mynda frá frönskumælandi svæðum utan Frakklands, s.s. Québec og Tchad. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á kvikmyndir eftir kvenleikstjóra. Opnunarmynd hátíðarinnar er The Artist, eftir Michel Hazanavicius. Þessi mynd kom öllum að óvörum árið 2011 og er talin líkleg til að hreppa Óskarsverðlaunin 2012. Nú á tímum bíómynda í þrívídd, kemur Listamaðurinn verulega á óvart: þetta er svart-hvít, þögul kvikmynd. Mjög djörf hugmynd sem gefur gersamlega slegið í gegn. Á bresku kvikmyndahátíðinni BAFTA um síðustu helgi fékk The Artist sjö verðlaun, en hún var m.a. valin besta myndin, Michel Hazanavicius var valinn besti leikstjórinn, auk þess sem hann fékk verðlaun fyrir besta handritið og Jean Dujardin fékk verðlaun sem besti leikari í aðalhlutverki.

Nýjast