Memento mori var fumsýnt hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik í nóvember 2004 og var valin áhugaverðasta leiksýningin á leiklistarhátíðinni Leikum núna! sem haldin var á Akureyri í júní 2005. Það var síðan valið sem framlag Íslands á NEATA-hátíðina 2006. Í Memento mori er skyggnst inn í heim fólks sem nýtur þeirrar blessunar - eða er það bölvun? - að geta ekki dáið. Þessar ódauðlegu verur velta fyrir sér lífinu, dauðanum og ódauðleikanum, og brugðið er upp svipmyndum af fortíð þeirra. Þegar á líður koma tengsl þeirra betur í ljós og þar kemur að þær hljóta að taka afstöðu til fortíðarinnar og ódauðleikans. Leikritið er framúrstefnuleg blanda af drama og húmor, heimspekilegum hugleiðingum, rómatík og fáránleika.
Í verkinu eru 8 - 9 hlutverk, jafnt fyrir karla og konur. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru vinsamlega beðnir um að mæta í Freyvang. Fyrsti samlestur var í gærkvöld, annar samlestur í kvöld kl. 20.00 og á laugardag verður farið yfir hlutverkaskipti og skipulag. Fyrirhugað er að hefja æfingar mánudaginn 31. ágúst og æfa út septembermánuð. Áætluð frumsýning er föstudaginn 2. október, segir á vef Freyvangsleikhússins.
Aðalfundur Freyvangsleikhússins verður haldinn í Freyvangi fimmtudaginn 3. september n.k kl. 20:00. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, auk þess sem rætt verður um verkefni komandi leikárs. Allir eru velkomnir.