Becromal líkt og mörg önnur alþjóðleg fyrirtæki hefur þurft að bregðast við samdrætti á alþjóðamarkaði. Það gerði fyrirtækið með því að draga úr famleiðslu sinni um 35% og í kjölfarið minnkaði því miður þörf fyrir starfsfólk og við höfum því þurft að segja 10 manns upp störfum, segir Rúnar Sigurpálsson fjármálastjóri hjá verksmiðju Becromal á Akureyri. Rúnar segir að samdráttur sé tímabundinn og eingöngu tilkominn vegna minnkandi eftirspurnar á erlendum mörkuðum vegna efnahagsástandsins. Verksmiðja félagsins í Krossanesi er nú rekin á um það bil 65% af fullri afkastagetu. Starfsmenn eru nú rúmlega 120 en voru um 135 þegar mest var. Við erum með 60 vélar sem voru allar keyrðar frá maí 2011 þangað til við þurftum að fara að slökkva á vélum í nóvember, segir Rúnar.
Áform hafa verið uppi um stækkun verksmiðju Becromal á Akureyri og segir Rúnar að ekki hafi verið hætt við stækkun verksmiðjunnar en vegna efnahagsástandsins og minnkandi eftirspurnar á alþjóðamörkuðum hefur þeim áformum verið slegið á frest, segir hann. Becromal, eins og fjölmörg önnur alþjóðleg fyrirtæki, þarf að taka mið af efnahagsástandinu eins og það er. Það er erfitt að segja til um hversu lengi þetta ástand varir en við högum seglum eftir vindi, fylgjumst grannt með þróuninni og aukum framleiðsluna um leið og eftirspurnin eykst.