Framkvæmdir við Vaðlaheiðar- göng hefjist þegar á næsta ári

Kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnar og Alþingis að taka atvinnu- og samgöngumál í kjördæminu föstum tökum. Vaðlaheiðargöng eru forgangsverkefni í atvinnu-, samgöngu- og ferðamálum kjördæmisins. Afar mikilvægt sé að það verkefni hefjist þegar á árinu 2010.  

Í tengslum við aukinn ferðamannastraum og uppbyggingu ferðamála þurfi að hefja stækkun flugstöðvar á Akureyri ásamt því að stórauka markaðssetningu svæðisins á erlendum vettvangi. "Atvinnuuppbygging á Bakka við Húsavík og orkuleit og orkuvinnsla á svæðinu mega undir engum kringumstæðum frestast og mikilvægt er að ríkisstjórnina bresti ekki stefnufestu í atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum og á öðrum stöðum í kjördæminu. Þjóðvegur 1 er ekki fullunninn í kjördæminu og á honum eru enn nokkrar einbreiðar brýr með tilheyrandi slysahættu og er það algjörlega óviðunandi ástand.  Þá þess krafist að öryggi þeirra sem þurfa að fara yfir háa fjallvegi til að sækja vinnu og þjónustu sé tryggt með öflugu viðhaldi og þjónustu þessara vega. Jafnframt vill fundurinn að mótuð verði margviss áætlun um jarðgangagerð í kjördæminu þar sem aldrei sé unnið að færri en einum jarðgöngum í ríkisframkvæmd," segir ennfremur í ályktuninni.

Kjördæmisþingið skorar á ríkisstjórnina að grípa nú þegar til róttækra aðgerða til að mæta sívaxandi greiðslubyrði almennings. Mikilvægt sé að skapa sanngjarnan grundvöll fyrir leiðréttingu lána þar sem ófyrirséðu tjóni af hruni fjármálakerfisins verði sem mest létt af þeim hluta almennings sem gerði sínar áætlanir í góðri trú. Sérstaklega er bent á að íbúar landsbyggðarinnar eigi þá réttlætiskröfu að hækkun verðtryggðra  íbúðalána þeirra fái sambærilega meðferð og  lán þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu - þó heildarskuldir íbúðareigenda á landsbyggðinni séu almennt lægri í fjárhæðum.

Kjördæmisþingið fagnar þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar að vinna að endurskipulagningu húsnæðismarkaðarins „að norrænni fyrirmynd" eins og það er orðað.   Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að kalla nú þegar til víðtæks samstarfs um að þróa, útfæra og hrinda í framkvæmd fyrstu skrefum á þeirri leið. Sérstaklega áréttar fundurinn að Íbúðalánasjóði verði tryggt öflugt umboð til að standa að lánveitingum um land allt, með heimildum til nauðsynlegrar endurfjármögnunar, þannig að fjölbreytt eignar- og rekstrarform nái fótfestu sem víðast.

Þá skorar kjördæmisþingið á ríkisstjórnina að staðfesta tímasetta áætlun um afnám verðtryggingar í fasteignaviðskiptum og á almennum neytendalánum og námslánum, óháð því hversu vel kunni að miða við innleiðingu framtíðargjaldmiðils samfara aðildarviðræðum við Evrópusambandið og nánari aðlögun að skilmálum Evru-svæðisins.

Kjördæmisþingið var haldið í Lundi Öxarfirði nú um helgina og var góð mæting á þingið og líflegar umræður. Að afloknu þinginu var eft til málþings um sveitarstjórnarmál, í aðdraganda kosninga. Framsögumenn, þeir Kristján Möller, Dunnar Svavarsson, Svanfríður Inga Jónasdóttir  og Hermann Jón Tómasson, fjölluðu um sveitarstjórnir og stefnumótun út frá ýmsum vinklum. Í framhaldinu spunnust fjörlegar umræður.

Nýjast