Framkvæmdir vel á veg komnar

Það var fjölmennt og góðmennt á fundinum í gær. Mynd: Heiddi.
Það var fjölmennt og góðmennt á fundinum í gær. Mynd: Heiddi.

Opinn íbúafundur um uppbyggingu á Bakka var haldinn á Fosshótel Húsavík í gær miðvikudag, rétt áður en blaðið fór í prentun.

Á fundinum var farið yfir stöðu verklegra framkvæmda sem tengjast Bakka en slíkir fundir hafa verið haldnir reglulega á uppbyggingartímanum. Þetta er í annað skiptið sem slíkur fundur er opinn almenningi.

Snæbjörn Sigurðarson verkefnisstjóri hjá Norðurþingi fór yfir framkvæmdir við Húsavíkurhöfn og að hans sögn eru þær langt komnar. Dýpkunarframkvæmdum er lokið og búið að lengja Bökugarðinn í 240 metra ásamt því að brimvörn var breikkuð og lengd til norðurs að gangamunna. Í vor og sumar verði svo klárað að steypa þekju á Bökugarðinn auk þess sem farið verður í frágang á gáma- og athafnsvæði næst garðinum. Búist er við því að framkvæmdum ljúki í haust.

Íbúafundur um Bakka

Að sögn Hauks Jónssonar frá Vegagerðinni er vinna við vega- og gangagerð einnig langt komin. Nú er unnið við frágang í göngum og stefnt að því að fara í malbikunarframvæmdir í vor og sumar á milli hafnarsvæðis og iðnaðarsvæðisins á Bakka. Þeim framkvæmdum á að vera lokið í ágúst á þessu ári.

Þórarinn Bjarnason fór yfir stöðu verkefna hjá Landsneti sem vinnur nú að því að reysa hús undir spennivirki á Bakka og við Kröflu. Einnig hefur verið unnið að uppsetningu á möstrum fyrir háspennulínur frá Kröflu um Þeistareyki og að Bakka. Búist er við því að þeim framkvæmdum verði lokið í haust og kerfið verði þá klárt til rafmagnsflutninga að Bakka.

Uppbygging Þeistareykjarvikjunar hefur gengið vel að sögn Vals Knútssonar hjá Landsvirkjun. Búið er að tryggja nægt gufuafl til framleiðslu á þeim 45 megavöttum sem þar verða framleidd þegar fyrsti áfangi verður tekinn í notkun. Áætað er að raforkuframleiðsla geti hafist eigi síðar en í október á þessu ári. Nú þegar er unnið að tvöföldun raforkuframleiðslu virkjunarinnar og gangi þær áætlanir eftir verður hægt að framleiða þar 90 megavött fyrri hluta árs 2018.

Hafsteinn Viktorsson fór yfir stöðu á uppbyggingu kísilvers PCC BakkiSilicon á Bakka. Uppbyggingin hefur að hans sögn gengið vel og stefnt að því að framleiðsla geti hafist í lok árs 2017. Nú þegar er búið að ráða 14 starfsmenn til fyrirtækisins og gert ráð fyrir því að þeir verði 110 þegar framleiðsla hefst.

 

Nýjast