Það hefur verið stefna stofnunarinnar til langs tíma að veita sem mesta og besta heilbrigðisþjónustu heima í héraði. Með þetta
að leiðarljósi hefur FSA haft forgöngu um að sérfræðingar þess veittu íbúum á Norður- og Austurlandi
heilbrigðisþjónustu á heimaslóð. Þessi stefna er í fullu samræmi við það sem heilbrigðisráðherra hefur kynnt
opinberlega í tengslum við þær skipulagsbreytingar sem framundan eru.
Í þessu sambandi er rétt að taka fram að sérfræðingar FSA hafa veitt þjónustu á Sauðárkróki, Húsavík,
Egilstöðum og Norðfirði. Með þessu hefur sérhæfð heilbrigðisþjónusta verið færð nær íbúum á
þessum stöðum og þeim veitt þjónusta í fleiri sérgreinum en áður var. Þannig hafa læknar FSA veitt þjónustu
í yfir 30 vikur á ári á Sauðárkróki í eftirtöldum sérgreinum; barnalækningum, bæklunarlækningum,
skurðlækningum, háls-, nef- og eyrnalækningum, þvagfæraskurðlækningum, æðaskurðlækningum, myndgreiningu, öldrunarlækningum
og endurhæfingarlækningum.
Á Húsavík fara læknar frá FSA og sinna sjúklingum í eftirtöldum sérgreinum; Geðlækningum,
kvensjúkdómalækningum, augnlækningum, svæfingalækningum, háls-, nef- og eyrnalækningum. Til Egilstaða og Norðfjarðar fara
sérfræðingar frá FSA og sinna sjúklingum í eftirfarandi sérgreinum; geðlækningum, háls-, nef- og eyrnalækningum,
kvensjúkdómalækningum, þvagfæraskurðlækningum og bæklunarskurðlækningum. Sérfræðingur í
húðsjúkdómalækningum sem starfar við Heilbrigðisstofnun Austurlands kemur og starfar einnig á FSA og veitir mikilsverða þjónustu.
Öll myndgreining á Norður- og Austurlandi er nú þegar sameinuð í einum grunni á FSA og með því hefur verið hægt að veita
mun betri þjónustu í myndgreiningu og rannsóknum en áður. Sameining myndgreiningarinnar hefur sýnt að sjúklingar fá fyrr greiningu og
í ákveðnum tilvikum sérfræðiþjónustu mun fyrr en ella.
Framkvæmdastjórn FSA lítur svo á að sameining heilbrigðisstofnana á Norðurlandi hafi í för með sér tækifæri til
bættrar og betri heilbrigðisþjónustu á þann hátt sem FSA hefur haft að leiðarljósi á undaförnum árum. Með
því að veita sem besta þjónustu sem næst fólkinu á sem hagkvæmastan hátt, þjónustu þar sem öryggi
sjúklinga er haft að leiðarljósi opnast möguleikar á að styrkja heilbrigðisþjónustuna á Norðurlandi enn frekar.
Það er von framkvæmdastjórnar að sú vinna sem nú fer af stað taki mið af þessu. Heilbrigðisráðherra hefir ákveðið
að starfsemina skuli skipuleggja og ákveða í samvinnu við heimamenn, þ.e. hvaða þjónustu á að veita á hverjum stað og af
hvaða fagfólki. Því ber að fagna að haft skuli að leiðarljósi öryggi við sjúklinga og að þjónusta við
þá standist fagleg og heilsuhagfræðileg viðmið. Mikill mannauður og sérfræðiþekking er til staðar í heilbrigðistofnununum
á Norðurlandi sem vitaskuld nýtist í sameinaðri, sterkari stofnun.