Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum á fundi sínum í gær, bókun vegna frumvarpa til laga um stjórn fiskveiða og um veiðigjald. Því hefur ítrekað verið haldið fram að nái frumvörpin fram að ganga geti það haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir afkomu útgerðarfyrirtækja og þar með stöðu einstakra sveitarfélaga og íbúa þeirra. Mikilvægt er þess vegna að fara vandlega yfir áhrif frumvarpanna áður en þingmenn taka afstöðu til þeirra, segir í bókuninni. Ennfremur kemur fram að bæjarstjórn leggur þunga áherslu á að ríkisstjórn Íslands og Alþingi láti vinna hlutlausa úttekt á áhrifum frumvarpanna á rekstrarskilyrði útgerðarinnar í bráð og lengd, og þar með atvinnu og byggð í landinu. Niðurstöður þessarar úttektar verði aðgengilegar þingi og þjóð áður en kemur að endanlegri ákvörðun í málinu.
Þótt allir bæjarfulltrúar hafi staðið sameiginlega að samþykkt bókunarinnar, tóku nokkrir þeirra til máls við afgreiðslu málsins. Víðir Benediktsson L-lista sagði bókunin væri mjög góð að því leiti að hún sendi skilaboð til stjórnvalda án þess að verið sé með bein inngrip i starf ríkisstjórnar eða Alþings. Þarna sé frekar hvatning til þess að fólk fái að vita hverjar afleiðingar þessara breytinga verða og að það verði búið að fara vel yfir það áður en endanleg ákvörðun verður tekin. Mér finnst það eðlilegt þegar verið er að breyta lögum og fara í mjög miklar aðgerðir að endirinn sé skoðaður. Það verði vandað til verka og að við fáum að vita hvaða áhrif þetta muni hafa hjá okkur í þessu sveitarfélagi og að forðast verði að það verði teknar ákvarðanir sem muni leiða til bölvunar, eins og við höfum reyndar upplifað í núverandi kerfi en við getum lært af þeirri reynslu. Víðir sagði að Akureyri væri sannarlega mikill útgerðarbær. Þetta skiptir okkur gríðarlega miklu máli og það sem ég hef mestar áhyggjur af er að rekstrarumhverfi fyrirtækjanna verði of erfitt, þetta verði of íþyngjandi skattbyrði. Við þurfum ekki á því að halda að róðurinn verði þyngdur í núverandi umhverfi. Sem betur er bjartara yfir þorskstofnunum og sjáum fram á aukningu í aflaheimildum á okkar verðmætasta stofni og þó fyrr hefði verið.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson Framsóknarflokki sagði þessi frumvörp hafa valdið mikilli úlfúð og fengið mjög harkaleg viðbrögð. Það er alveg ljóst að í bæjarstjórn Akureyrar eru menn ekki á eitt sáttir og skiptar skoðanir um málið. Ég hef haft miklar áhyggjur af þessum frumvörpum og þau snúa verulega að þessu svæði sem við búum á. Ég hef talið að það séu ýmsir vankantar á frumvörpunum sem gætu haft áhrif á þessu svæði okkar í náinni framtíð. Við komust að þessari sameiginlegri bókun og ég tel að hún sé þannig úr garði gerð að við getum öll staðið á bak við hana. Það er mikilvægt að það liggi fyrir útreikningar á þessum frumvöprum þannig að fólk geti tekið upplýsta ákvörðun um þetta stóra mál, sagði Guðmundur. Hann sagði að koma þyrfti fram hvaða áhrif þetta hefur hér á svæðinu og á landsbyggðinni allri.
Andrea Sigrún Hjálmsdóttir VG, sagði það jákvætt að bæjarstjórn hefði komið sér saman um sameiginlega bókun. Það er mjög mikilvægt að við höfum hagsmuni svæðisins að leiðarljósi og beitum okkur á þeim vettvangi. Þetta er í umsagnarferli og eðlilega er ekki fullkomin sátt á meðal þjóðarinnar og hagsmunaaðila, frekar en hér innan bæjarstjórnar Akureyrar. Ég held að það sé mjög eðlilegt að stjórnvöld taki tililt til allra þeirra athugasemda sem koma fram, til þess að meginmarkmið frumvarpsins megi nást og við náum sátt um sjávarauðlindina, sem ekki hefur verið sátt um, sagði Andrea.
Ólafur Jónsson Sjálfstæðisflokki sagði að ekki þyrfti að fara í grafgötur með mikilvægi sjávarútvegs, fiskvinnslu og tengdra greina á atvinnulíf á Akureyri. Það eru sóknarfæri í sjávarútvegi og við hljótum því að horfa til þess að öflug fyrirtæki í þessum greinum fái notið þess í framtíðinni. Það er líka mikil endurnýjunarþörf í skipum og búnaði og það þarf að tryggja að reksturinn leyfi það. Þessar greinar atvinnulífisins hafa verið og verða vonandi áfram þær greinar sem öðru fremur fjárfesta og byggja upp á landsbyggðinni. Þessi bókun sýnir vel sameiginlegar áhyggjur af þessum málum og það er mjög mikilvægt, sagði Ólafur.
Hermann Jón Tómasson Samfylkingu, sagði skiptar skoðanir um þetta frumvarp og að einnig væri mikil óvissa varðandi frumvarpið. Það er ekki bæjarstjórnar að taka afstöðu til frumvarpsins sem slíks en við getum velt fyrir okkur afleiðingum þess. Ég er hjartanlega sammála megin markmiðum frumvarpsins, ég tel þau vera góð og ég tel þau vera leið til að sætta þjóðina. Frumvarpið stefnir að því að íslenska þjóðin, eigandi auðlindarinnar, sem fiskurinn í sjónum er, fái sinn réttláta skerf til sinna afnota af þessari auðlind. Það er meginmarkmið þessa frumvarps og tilraun til þess að ná sátt um hvernig þessi auðlind er nýtt. Þessi bókun er áskorun bæjarstjórnar til ríkis og Alþingis að vanda vel til verka á þessum síðustu metrum og skoða vandalega áhrifin af frumvarpinu eins og það liggur fyrir og gera þá nauðsynlegar breytingar ef þörf er á, sagði Hermann.
Sigurður Guðmundsson Bæjarlista sagði það hlutverk bæjarstjórnar að styðja við fyrirtæki sem eru innan bæjarmarkanna. Við berjumst fyrir ýmsum hlutum og okkar hlutverk er að vernda og styðja þau fyrirtæki sem eru að halda hér uppi háu atvinnustigi, sem stendur hærra en annars staðar á landinu. Í raun ættum við að beita okkur mun meira á bak við tjöldin, þrýsta á þingmenn kjördæmisins og lengra ef þess þarf, sagði Sigurður.