Frækinn sigur KA/Þórs í bikarkeppninni í handbolta

Kvennalið KA/Þórs, sem leikur í næst efstu deild, vann frækinn sigur á Gróttu, sem leikur í efstu deild, í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta í KA-heimilinu nú fyrir stundu. KA/Þórs stelpurnar höfðu eins marks forystu í hálfleik 12-11 og þær höfðu eins marks sigur eftir spennandi lokamínútur, 22-21 og eru komnar áfram í bikarkeppninni.  

Grótta komst yfir í upphafi leiks en heimastúlkur náðu fljótlega að jafna og komast yfir. Mest náðu þær tveggja marka forystu en í hálfleik munaði einu marki á liðunum. KA/Þórs stúlkur héldu þéttingstaki á leiknum í síðari hálfleik og náðu mest fimm marka forystu, 19-14 eftir um 15 mínútna leik. Þá var Arna Erlingsdóttir, skytta KA/Þórs, tekin úr umferð og við það riðlaðist sóknarleikurinn aðeins. Gróttustúlkur náðu að minnka muninn í eitt mark 21-22 þegar um hálf mínúta var eftir. Síðasta sókn KA/Þórs misfórst en gestunum af Seltjarnarnesi tókst ekki að nýta þann stutta tíma sem eftir var til að jafna og KA/Þórs fögnuðu sigri vel og innilega.

Nýjast