"Við sóttum um styrk til Velferðarvaktarinnar til þess að halda þriggja daga námskeið fyrir atvinnulaust fólk og gerðum jafnframt samkomulag við Vinnumálastofnun hér á Akureyri um mótframlag. Þetta er nokkuð dýrt verkefni þótt við hefðum verið búnir að tryggja reynda og góða áhöfn til að taka þátt í því í sjálfboðavinnu," segir Þorsteinn. Námskeiðið snýst um fræðslu um Húna, skipasmíðar, öryggisfræðslu til sjós og frekari undirbúning fyrir sjómennsku. Einnig á að kenna almenna hnúta, hvernig á að umgangast veiðarfæri og veiðistöng, hvernig skera á niður beitu og hvernig á að beita. "Þessu til viðbótar er hugmyndin að sigla á miðin og renna fyrir fisk. Karlarnir í áhöfn Húna hafa mikla reynslu af því að gera að fiski og flaka og þeir ætla að kenna fólki handbrögðin. Loks er gert ráð fyrir því að þátttakendur fari heim með aflann. Einnig var hugmyndin að heimsækja Elvar Reykjalín í Ektafiski á Hauganesi og sjá hvernig hann vinnur fiskinn."
Þorsteinn er ekki með skýringu á þessu áhugaleysi fyrir námskeiðinu. "Margir eru hræddir við sjóveiki en Húni er það stór bátur að hann hreyfist lítið og hér er ekki úthafsalda. Við fórum í 15 ferðir með nemendur í 6. bekk í grunnskólum bæjarins nú í haust og fengum aðeins brælu í einni ferðinni. Nokkrir krakkar urðu sjóveikir en það gekk yfir hjá þeim um leið og þau fóru að veiða. Við fengum fisk í öllum ferðunum og krakkarnir fengu að fara heim með fiskinn. Þar var um ræða verkefnið; Frá öngli í maga og þetta námskeið er í raun frekari útfærsla á því og stílað upp á fullorðna."
Þorsteinn segir að það geti vel verið að yngra fólkið sem er án vinnu, sjái ekki mikla möguleika í tenglsum við sjómennsku. "Ég veit þó að hér byrjaði ungur drengur að hjálpa okkur á Húna 13 ára gamall og 15 ára náði hann sér í réttindi hjá Sjómannaskólanum og hann hefur í tvö sumur starfað hjá Norðursiglingu við hvalaskoðun. Þannig að með því að sækja sér reynslu, þekkingu og réttindi, eiga menn frekari möguleika," segir Þorsteinn.
Nánari upplýsingar um námskeiðið í næstu viku er að finna á heimsíðunni; huni.muna.is og hjá Vinnumálastofnun. "Fyrir mér er þetta áhugavert námskeið og það er líka áhugavert að veiða fisk í soðið, því fiskur er lúxusvara og ekki ódýr. Við höfum þegar lagt út í kostnað og vinnu, Velferðarvaktin hefur greitt út sinn hlut í þessu verkefni og það væri grátlegt ef við þyrftum að endurgreiða Velferðarvaktinni styrkinn, vegna dræmrar þátttöku á námskeiðið," sagði Þorsteinn.
Jafnframt er verið er að kanna möguleika á því að fá Slysavarnaskóla sjómanna til að halda námskeið á Akureyri í vetur. Þorsteinn segir að í kjölfar niðurskurðar hjá skólanum, hafi verið hætt að halda námskeið á landsbyggðinni og að það sé óásættanlegt.