Vel heppnuðum Andrésar Andar leikum á skíðum lauk í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar sl. laugardag, í 37. sinn, en mótið stóð yfir í þrjá daga. Alls voru 620 keppendur skráðir til leiks frá skíðafélögum um allt land og var keppt í alpagreinum og skíðagöngu, sem og á snjóbretti í fyrsta sinn. Ingólfur H. Gíslason, formaður Andrésarnefndar Skíðafélags Akureyrar, segir mótið hafa gengið vel.
Þessir Andrésarleikar voru frábærir í alla staði. Skíðafærið og veðrið var alveg kjörið. Nýja greinin (snjóbretti) gekk alveg rosalega vel og allir sem kepptu í því voru mjög ánægðir, sagði hann.