Foss, Trekt og Flækja eru nöfnin á rennibrautunum

Fjöldi manns lagði leið sína í Sundlaug Akureyrar í dag. Mynd/Axel Þórhallsson
Fjöldi manns lagði leið sína í Sundlaug Akureyrar í dag. Mynd/Axel Þórhallsson

Mikil og góð stemning var í Sundlaug Akureyrar í dag þegar nýju vatnsrennibrautirnar voru teknar í notkun. Tilkynnt var um úrslit í nafnasamkeppni fyrir brautirnar og fengu þau sem lögðu til nöfnin sem voru valin að fara fyrstu ferðina hvert í sína brautina. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Tveir lögðu til nafnið Trektin á brautina sem er líkust trekt í laginu. Það voru þær Stefanía Sigmundsdóttir og Bryndís Anna Magnúsdóttir og var Bryndís valin til að renna sér fyrst í þeirri braut.

Sex mæltu með að langa brautin fengi nafnið Flækjan. Það voru þær Kristrún og Arnheiður saman, Sigrún Stefánsdóttir, Sigríður Ragnarsdóttir, Lilja Hilmisdóttir og Hanna Þórey Guðmundsdóttir og var Hanna Þórey svo heppin að nafn hennar var dregið úr pottinum.

Loks var Kristjana Mjöll Víðisdóttir ein með tillöguna um að litla brautin fengi heitið Fossinn og renndi hún sér fyrst í Fossinum.

Sundfélagið Óðinn bauð upp á pylsur og Trópí á bakkanum, blásturssveit lék nokkur lög og síðan tók við plötusnúður sem lét vinsælustu lög dagsins í dag óma yfir sundlaugarsvæðið.

Veðrið var eins og best verður á kosið og biðraðir mynduðust strax í nýju vatnsrennibrautirnar. Opið er til miðnættis í kvöld í Sundlaug Akureyrar og einnig á morgun, föstudaginn 14. júlí.

Endanlegur kostnaður liggur fyrir í haust

Kostnaður við endurbætur á sundlaugarsvæðinu er kominn upp í tæpar 400 milljónir eða tæplega tvöfalt meira en áætlanir gerðu ráð í fyrstu. Enn á eftir að klára aðrar framkvæmdir á svæðinu en búist er við að svæðið verði allt klárt í haust. Þá mun endanlegur kostnaður liggja fyrir. 


 

Nýjast