"Einar Karlsson móðurafi minn og Akureyringur fór með mig smágutta um hverja helgi á rallíkrossbrautina og leyfði mér að keyra og keyra í öllum veðrum á litlum kartbíl. Kristjáns nafnið mitt er líka frá Akureyri og samtvinnað íslenskri bílasögu því að það kemur frá langafa mínum KR Kristjánssyni. Svo það lá afskaplega beint við að heiðra þessa tvo afa með því að ganga til liðs við Bílaklúbb Akureyrar. Þótt ég hafi ekki keppt á Íslandi síðan haustið 2006 þá slær hjartað í íslensku mótorsporti og Bílaklúbbur Akureyrar er að gera frábæra hluti," segir Kristján Einar. Hann kynntist BA á sl. ári þegar útnefning á Akstursíþróttamanni ársins fór fram norðan heiða og leist vel á.
"Framtíðarsýn Bílaklúbbsmanna varðandi keppnisbrautir og æfingasvæði er nákvæmlega eins og mann dreymir um að sjá. Ég veit af eigin reynslu hversu miklu betur undirbúinn ég kom 17 ára út í almenna umferð en vinir mínir sem aldrei höfðu æft eða keppt í gokarti. Ég hef mikinn áhuga á að vinna í uppbyggingu á mótorsporti fyrir krakka og unglinga. Það skilar sér margfalt í akstursþroska og svo er það bara svo gaman!"
Undir þau orð tekur Björgvin Ólafsson hjá BA sannarlega. Sem kunnugt er vinnur Bílaklúbburinn nú hörðum höndum að því að koma upp fullbúnu akstursíþróttasvæði og ökugerði sem mun gjörbylta þjálfun og æfingaraðstöðu allra ökunema og akstursíþróttamanna. „Kristján Einar er gangandi dæmi um hvað það er hægt að ná langt á eigin trú en árangur hans á heimsvísu í dag er alveg með ólíkindum og þá sér í lagi ef horft er til þess að hann hefur til þessa ekki haft neina aðstöðu til æfinga hér á landi. Það mun sem betur fer breytast með tilkomu okkar svæðis og því munu næstu kynslóðir geta notið þess ávinnings að geta hafið æfingar frá ungaaldri eins og jafnaldrar þeirra í nágrannalöndum okkur."
Björgvin segir að BA-menn séu mjög stoltir yfir því að Kristján Einar sé nú orðinn hluti af Bílaklúbbi Akureyrar. "Við vitum að hann á eftir að gera stóra hluti fyrir félagið og í raun alla byggð hér með kynningu sinni á okkar svæði og þeim sérstöku aðstæðum sem við höfum hér veðurfarslega séð til allra æfinga. Við setjumst því niður enn spenntari en fyrr er við horfum á næstu keppni í Barcelona þar sem við eigum ekki bara Íslending í formúlukeppni heldur nú félagsmann. Og svo er bilið orðið ótrúlega stutt í Formúlu 1 þannig að við krossum fingur fyrir Kristján" sagði Björgvin.
Kristján Einar keppti fyrst í gokarti 14 ára og var þá yngsti keppandinn til að setjast i ökumanssæti á Íslandi. Hann varð
Íslandsmeistari í karti 2006 og fór ári síðar til Bretlands og reyndi fyrir sér í byrjendaformúlu BMW. Hann sýndi slíkan
árangur í prófnum að honum bauðst að spreyta sig á öflugri bílum og 7 mánuðum síðar hóf hann keppni í
Bresku Formúlu 3 með meistaraliðinu Carlin Motorsport. Það lið á að baki einstakan feril og hefur skilað ökumönnum á borð
við Sebastian Vettel Robert Kubica og Jaimie Alguersuari upp í Formúlu 1. Alguersuari var reyndar liðsfélagi Kristjáns Einars á liðnu
ári. En það að fara beint úr karti í Formúlu 3 hafa ekki margir gert og í raun var Kristján Einar sá þriðji í
Bresku Formúlu 3 til að gera slíkt og fetaði þar með í fótspor Bruno Senna og Jenson Button. Efnahagshrunið átti sinn þátt
í að Kristján Einar þurfti að hætta keppni í Bresku F3 2008 þegar ein keppnishelgi var eftir. Hann fór þá til æfinga
hjá Newman Wachs Racing í Bandaríkjunum en það er þekkt lið sem Paul Newman leikari stofnaði á sínum tíma. Þegar
keppnisáform gengu ekki upp vegna kostunarmála spurðist það út og breska liðið Team West Tec bauð Kristjáni Einari að keppa með
liðinu í Opnu Evrópsku Formúlu 3.
"Ég er gríðarlega lánsamur að vera að keppa í ár. Það eru þvílík afföll og fjölmargir kappakstursmenn með
miklu meiri reynslu sem eru ekki að keppa núna," segir Kristján Einar. "Kappakstur er miklu miklu kostnaðarsamari en nokkur önnur íþrótt. En á
móti kemur að í öllum heiminum erum við ekki nema svona 180 keppendur á fyrstu stigum atvinnumennskunnar og upp í Formúlu 1 eða Indy Racing League
svo hópurinn sem er á leiðinni á toppinn er ekki fjölmennur. Keppnissætið mitt er kostað að stóru leyti af liðinu sjálfu sem er
mjög óvanalegt í Formúlu 3 en hluta þáttökukostnaðarins þarf ég að standa straum af sjálfur og það hefur tekist
með stuðningi frá vörumerkjum eins og Cheerios Taco Bell og Now og svo fyrirtækjum og hópum sem hafa myndað stuðningsliðið mitt. Ég væri
ekkert að keyra án þessa stuðnings frá Íslandi og ég ætla mér svo sannarlega að endurgjalda þessum aðilum öllum með
góðum árangri og íslensku stolti" segir Kristján Einar.
Hann á eina keppnishelgi framundan sem eru lokakeppnir Opnu Evrópsku F 3 í Barcelona nú um mánaðarmótin og mun RÚV sýna beint frá
báðum keppnunum. En vinnan fyrir tímabilð 2010 er komin í fullan gang og þar eru margir aðilar að taka höndum saman með kappakstursmanninum
unga. "Þetta gerist ekki öðruvísi og ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er að lifa draum milljóna manna og
ábyrgðinni sem því fylgir," segir Kristján Einar. "En mér var gefið ótrúlegt tækifæri og ég ætla að gera eins
mikið úr því og ég get því að ég veit að það er allt hægt ef maður er tilbúin að leggja endalaust á
sig og missir aldrei sjónar á takmarkinu."