Forgangsröð og fjárlög

Kristján Þór Júlíusson skrifar

Það var raunalegt í ljósi digurmæla nokkurra þingmanna NA kjördæmis og stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar um ranga forgangsröðun í fjárlögum að verða vitni að afstöðu þeirra við afgreiðslu fjárlaga ársins 2012 í síðustu viku.  Allir greiddu þeir atkvæði á móti því að draga til baka niðurskurð fjárveitinga til FSA að upphæð 27 mkr., heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Húsavík um 52 mkr., 19 mkr. til SÁÁ og fleira mætti nefna. Þess í stað skipuðu þeir framar í forgangsröð að setja 40 mkr. í 3 nýja aðstoðarmenn ráðherra, 150 mkr. til að byrja endurnýjun á tölvukerfi Tollstjóra, 30 mkr. til Óbyggðanefndar ( sem ekki er starfandi) o.s.frv.

Í samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að í ríkisstjórnarsamstarfi flokkanna verði áhættumat ávallt lagt til grundvallar ákvörðunum um niðurskurð og sameiningu stofnana og þess freistað að leggja mat á hættu á auknum kostnaði til lengri tíma litið. Jafnframt verði lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar.
Þessar fyrirheit ásamt mörgum öðrum sem kjósendum þessara flokka voru gefin í aðdraganda alþingiskosninga 2009 hafa því miður aldrei komist til framkvæmda. Því síður hefur vinna við fjárlagagerð hvers árs verið unnin í anda þessara fyrirheita.
Við 2.  umræðu fjárlaga ársins 2012 gáfu stjórnarliðar fyrirheit um að tilteknir þættir yrðu skoðaðir sérstaklega áður en fjárlögin kæmu til lokaafgreiðslu. Þau mál sem hæst bar og beint var til fjárlaganefndar að skoða sérstaklega lutu að heilbrigðis- og öldrunarmálum, fangelsismálum, fjárhag sveitarfélaga, umboðsmanni skuldara og Fjármálaeftirlitinu. Auk þess var ítrekað bent á nauðsyn þess að rýna betur tekjuhlið fjárlaganna en gert hefur verið.
Tveir fundir voru haldnir í nefndinni á milli 2. og 3. umræðu. Á fyrri fundinum var rætt við fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Nefndin tók erindi þeirra ekki til umfjöllunar að lokinni kynningu sem telja verður ámælisvert miðað við þau gögn sem fjárlaganefnd voru kynnt. Síðari fundurinn var boðaður til úttektar málsins. Þar lagði meirihlutinn fram tillögur sínar að breytingum á fjárlagafrumvarpinu og afgreiddi út úr nefndinni.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi.

 

Nýjast